Bilaður sími örlagavaldur

Aníta með börnunum sínum tveimur, þeim Mikael Rafni og Helen …
Aníta með börnunum sínum tveimur, þeim Mikael Rafni og Helen Aríu Björgvinsbörnum. mbl.is/Árni Sæberg
Fyrir fjórum árum hafði Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir engin sérstök áform um að setjast á skólabekk. Engu að síður útskrifaðist hún með sveinspróf í rafvirkjun um liðna helgi. Hún er því fullgildur rafvirki og komst með útskrift sinni í hóp aðeins um 50 kvenna sem lokið hafa sveinsprófi í rafiðngreinum hér á landi. Útskriftin var söguleg fyrir þær sakir að meistari Anítu í starfsnámi hennar er einnig kona, rafvirkjameistarinn Kristín Birna Fossdal.
Samkvæmt upplýsingum frá Rafiðnaðarsambandinu mun þetta vera í fyrsta sinn sem kona er meistari annarrar konu í rafiðngrein hér á landi, og jafnvel þótt víðar væri leitað. Af einhverjum ástæðum hafa rafiðngreinar eins og rafvirkjun og rafeindavirkjun höfðað frekar til karla en kvenna, en konur eru aðeins um eitt prósent félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu. 

Boðin vinna á staðnum

Aníta er ánægð með að hafa fundið rafvirkjun og valið hana sem starfsvettvang, en sagan af því hvernig það atvikaðist hófst á biluðum farsíma í fæðingarorlofi.

„Ég átti á sínum tíma iPhone 4S og skjárinn á honum brotnaði. Ég var með lítið á milli handanna á þessum tíma og fannst ótrúlega dýrt að láta gera við símann. Þannig að ég pantaði skjá á netinu og skipti um hann sjálf. Það gekk upp og síminn var eins og nýr. Skömmu eftir það fór hátalarinn í símanum að stríða mér og ég ákvað að panta hátalara og skipta honum út líka. Það gekk en hljóðið virkaði samt ekki og þannig neyddist ég til að fara með hann í viðgerð.“ Hún sagði frá því á verkstæðinu að hún hefði skipt sjálf um skjá og hátalara en ekki tekist að koma hljóðinu í lag. Henni fannst viðmótið frekar sérstakt og afgreiðslumaðurinn horfði á hana eins og hún væri eitthvað skrítin. Sá sem afgreiddi hvarf svo á bak við en kom aftur og bauð henni vinnu við fjarskiptaviðgerðir. Það sem henni fannst skrítið viðmót var þá miklu frekar undrun yfir því hversu vel henni hafði tekist til við að skipta um skjáinn og hátalara. Í ljós kom að það hafði verið móðurborðið í símanum sem var bilað, þannig að nýr hátalari hefði ekki dugað til.

Þá segist Aníta hafa hugsað með sér: „Hvað ef ég gæti lagað móðurborðið í símanum mínum sjálf?“ og hún lét ekki þar við sitja heldur skráði sig í nám í rafvirkjun eftir að hafa unnið á áðurnefndu verkstæði við viðgerðir á farsímum og fjarskiptatækjum í nokkra mánuði. Hún byrjaði í kvöldskóla með vinnu haustið 2014 en fór svo í fullan dagskóla og lauk náminu á methraða. Nú, haustið 2018, hefur hún lokið bóklega náminu, námssamningi og sveinsprófi og er orðin rafvirki.

Í skólanum fékk hún kynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur og fannst áhugavert og spennandi að fara að starfa þar, við ansi mikið stærri vélbúnað en síma og spjaldtölvur sem hún hafði kynnst viðgerðum á í upphafi. Hún hóf störf hjá Orku náttúrunnar (ON) fyrir einu og hálfu ári, fyrst meðfram skóla en nú í fullu starfi sem rafvirki.

„Þegar ég kem í viðtal hjá ON þá var það eiginlega ákveðið þar og þá að Stína yrði minn meistari og fyrir mér var það miklu meira spennandi en að fá karlmann. Hún er bráðgáfuð, ótrúlega fyndin, algjör snillingur og í dag mín helsta fyrirmynd í þessum geira.

Það skemmtilegasta við starfið er hvað það er fjölbreytt. Vélarstoppin finnst mér skemmtilegust, þá eru allir á hlaupum og allt stappað af starfsfólki sem keppist við að vinna hratt og hörðum höndum. Annars hef ég mikið verið í að laga og smíða stýriskápa fyrir gufuveituna en núna upp á síðkastið hafa dagarnir einkennst af miklum lagfæringum og breytingum vegna úttektar. Ég vissi ekkert hvað ég var að koma mér út í þegar ég skráði mig í þetta nám, en með tímanum þá einhvern veginn hefur þetta vaxið með mér og áhuginn verður alltaf meiri og meiri. Það er fátt meira spennandi en að vinna á svona stórum vinnustað með svona stórar vélar og í raun frekar hættulegu umhverfi. Það er ákveðin spenna sem felst í því.“

Nánari umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert