Erfiðar aðstæður í Helguvík

Flutningaskipið Fjordvik í Helguvík.
Flutningaskipið Fjordvik í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varðskipið Týr er komið til Helguvíkur þar sem flutningaskipið Fjordvik strandaði í nótt. Að sögn Landhelgisgæslunnar er veðrið mjög slæmt og aðstæður erfiðar. Skipið lemst við stórgrýttan hafnargarðinn.

Klukkan átta munu Landhelgisgæslan, Umhverfisstofnun og aðrir hlutaaðeigandi hittast og ræða hver næstu skref verða.

TF-LIF var kölluð út fyrr í nótt til björgunar skipverja.
TF-LIF var kölluð út fyrr í nótt til björgunar skipverja. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hefur einhver olía lekið úr skipinu. Sérfræðingar frá Umhverfisstofnun voru kallaðir á staðinn vegna lekans. Ekkert verður gert fyrr en búið er að kanna botn skipsins og sjá hversu mikill lekinn er.

Lögreglan hefur lokað svæðinu í kring og fer því enginn óviðkomandi þangað. Björgunarsveitarmenn eru einnig á vettvangi.

Greint var frá því í útvarpsfréttum RÚV að Pólverjar hafi að mestu verið í áhöfninni. Lóðsinn var íslenskur. 

Varðskipið Týr á siglingu.
Varðskipið Týr á siglingu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert