Neyðarsöfnun vegna hungursneyðar

Mikil hungursneyð er í Jemen.
Mikil hungursneyð er í Jemen. Ljósmynd/Rauði krossinn

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að hefja neyðarsöfnun vegna vopnaðra átaka og yfirvofandi hungursneyðar í Jemen.

Með þessu taka samtökin þátt í samræmdu átaki Rauðakrosshreyfingarinnar og bregðast við ákalli alþjóðasamfélagsins vegna þeirrar alvarlegu neyðar sem er í Jemen. Vegna vopnaðra átaka í landinu er viðvarandi fæðuskortur og vöntun á heilbrigðisaðstoð. Með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900 er starf Rauðakrosshreyfingarinnar í Jemen styrkt um 2.900 kr. Sú upphæð dugar til þess að þrjú börn í Jemen fái mat í einn mánuð, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Íslensk stjórnvöld hafa verið í forystuhlutverki að benda á þá neyð sem vopnuð átök í Jemen valda almenningi þar í landi, sér í lagi börnum, eldra fólki og þeim sem þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda,“ segir Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, í tilkynningunni.

Áætlað er að 60% íbúa Jemen skorti mat eða um 17,8 milljónir einstaklinga. Ástandið í landinu hefur einnig leitt til þess að heilbrigðiskerfið hefur hrunið. Mikill skortur er á bólusetningum barna og fjöldi vannærðra barna er mikill. Hefur þetta í för með sér að útbreiðsla sjúkdóma meðal barna hefur stóraukist. Fréttir benda til þess að útbreiðsla ýmissa sjúkdóma, svo sem mislinga og kóleru, hafi aukist mikið undanfarið.

Elín J. Oddsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins, fór á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) til Jemen sl. vetur og vor og segir neyðina mikla. Þegar hún var á svæðinu var mikill skortur á ýmsum nauðsynjum og rafmagn t.d. mjög ótryggt. Aðstæður hafa síst batnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert