Sjór líklega komist í vélarrúmið

„Það eru engin líf í hættu og við gleðjumst yfir því en þarna er ægilega stórt skip í fjörunni og það þarf að huga vandlega að næstu skrefum,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, björgunarstjóri hjá björgunarsveitinni Þorbirni, sem var á vettvangi í Helguvík í morgun eftir að sementsflutningaskipið Fjordvik strandaði þar.

„Við vorum að gera okkur klára til þess að bjarga mönnum frá borði en þyrlan náði sem betur fer að bjarga þeim,“ segir hann og á þar við þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Fjordvik við hafnargarðinn í Helguvík.
Fjordvik við hafnargarðinn í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að nóttin hafi verið mjög blaut. Björgunarsveitarmenn hafi staðið við skipið og fylgst með hvort olíuleki hafi orðið og hvort sjáanleg göt hafi verið á skrokknum. Alls voru á bilinu 80 til 100 björgunarsveitarmenn og aðrir viðbragðsaðilar á staðnum þegar mest lét. 

„Það var mikill viðbúnaður strax í upphafi enda menn um borð í skipinu þegar við vorum komnir á vettvang. Um klukkutími leið frá því að tilkynning um strandið barst þangað til þyrlan var búin að hífa skipverjana um borð.

Frá Helguvík.
Frá Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Otta voru engin sjáanleg göt á skrokki skipsins en hann segir ljóst að það hafi tekið inn á sig sjó en það drapst á vélum þess í nótt. Viðvörunarbjöllur fóru þá í gang í skipinu og líklegt er að þær hafi verið að tilkynna um að sjór hafi komið í vélarrúmið.

Hann segir að biðstaða sé núna á meðan Landhelgisgæslan og aðrir hlutaðeigandi ráða ráðum sínum en fundur þess efnist hófst klukkan 8.

Skipið var smíðað árið 1976 og er frá Bahamaeyjum.

Flutningaskipið Fjordvik í Helguvík.
Flutningaskipið Fjordvik í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert