Umhverfi sérgreinalækna endurmetið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kveðst vera bjartsýn á samstarf við nýjan …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kveðst vera bjartsýn á samstarf við nýjan forstjóra SÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Endurmeta þarf umhverfi þjónustu sérgreinalækna og velferðarráðuneytið þarf að vera markvissara í kaupum á heilbrigðisþjónustu. Þetta er mat Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við sérgreinalækna rennur út um áramótin og hefur ráðherra fundað tvívegis með sérgreinalæknum frá því í sumar þar sem skerpt hefur verið á grundvelli sameiginlegs skilnings á því hvað þurfi að felast í nýjum samningum.

„Þeir fundir hafa verið verulega gagnlegir, við erum að mörgu leyti að koma inn í nýtt umhverfi í ljósi þess að við erum með skýrslu Ríkisendurskoðunar um kaup á heilbrigðisþjónustu og McKinsey-skýrsluna,“ segir Svandís og á þá við skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company á rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans sem gerð var fyrir tveimur árum.

Tíminn of knappur

Svandís segir að við gerð nýja samningsins skipti máli að einhvers konar aðgangsstýring eða trygging verði fyrir því að ráðuneytið verði meðvitað um hvaða heilbrigðisþjónusta verði veitt á grundvelli samninganna.

„Okkur hefur orðið töluvert ágengt í að stilla saman strengi,“ segir Svandís og er hún bjartsýn á að samstarf við nýjan forstjóra SÍ, Maríu Heimisdóttur, sem tók formlega við embættinu í fyrradag, muni ganga vel.

Að öllu óbreyttu verða samningar hins vegar lausir um áramótin og Svandís segi að ómögulegt sé að segja til um hversu lengi sérgreinalæknar verði án samnings. Hún hefur áður lýst vilja sínum til að framlengja gildandi rammasamning um eitt ár meðan unnið yrði að breyttu fyrirkomulagi og segir hún að sérgreinalæknar hafi sjálfir kallað eftir því þar sem tíminn til að ganga frá nýjum samningum er of knappur.

„Ég er sammála því, þetta eru mismunandi sérgreinar og mismunandi umgjörð sem hver grein kemur úr og þarf á að halda. Ég vænti þess að sérgreinalæknar ígrundi það vel hvort það geti ekki verið okkar sameiginlegi skilningur að við getum haft þetta ráðrúm til að setja saman nýtt samningsumhverfi. En það eru tveir við borðið og við sjáum bara hvernig þessu samtali vindur fram. Ég er vongóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert