Unnið að pallasmíði í nótt

Skipið strandaði í Helguvík í nótt. Nú verður unnið að …
Skipið strandaði í Helguvík í nótt. Nú verður unnið að því að smíða pall svo menn komist yfir í skipið til að meta ástand þess og taka ákvörðun um næstu skref. Hollenskir sérfræðingar eru komnir til landsins sem ætlað er að búa til sérstaka aðgerðaráætlun varðandi losun skipsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið verður að því í kvöld og nótt að smíða landgang sem gerir mönnum kleift að komast um borð í flutningaskipið Fjordvik sem strandaði við Helguvík í nótt. Vonir eru bundnar við það að menn komist um borð í fyrramálið til að meta ástand skipsins. Á þriðja tug manns er á vettvangi.

Búið er að setja upp stóra ljóskastara til að lýsa upp svæðið þannig að menn geti unnið þar í nótt. Þá er varðskipið Þór komið á staðinn. 

Í kvöld fór fram fundur þar sem m.a. fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Reykjanesbæjar, Umhverfisstofnunar og hafnaryfirvalda í Helguvík fóru yfir stöðuna, ræddu aðgerðaáætlun og næstu skref. 

Fjordvik er skorðað af við hafnargarðinn, en skipið er tekið …
Fjordvik er skorðað af við hafnargarðinn, en skipið er tekið að halla og síga. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Kjartan Már Kjartanson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sat fundinn í kvöld.

„Aðgerðaáætlunin, eins og hún liggur fyrir, er ekki tilbúin í þeirri mynd sem hún þarf að vera og verður, einfaldlega vegna þess að þeir [björgunaraðilar og fulltrúar útgerðarinnar] hafa ekki komist um borð í skipið. Þannig að planið sem verið er að vinna eftir er þannig, að þessir hollensku sérfræðingar og Köfunarþjónustan eru að byggja pall við skipið í kvöld og nótt. Þeir fara um borð í það á morgun vonandi, og það koma þrír aðrir sérfræðingar frá Hollandi á morgun til liðs þessa tvo sem komu í dag. Þá munu þeir meta stöðuna og hefjast handa við að búa til þetta alvöru björgunarplan,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is í kvöld.

Hann segir að allir sem sátu fundinn í kvöld hafi samþykkt að vinna málið með þessum hætti.

Aðspurður segir hann að Hollendingarnir starfi hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem sérhæfir sig í svona björgunaraðgerðum. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur höfuðstöðvar í Houston í Bandaríkjunum en er með starfsstöðvar víða um heim, m.a. í Hollandi. Þeir komu m.a. að aðgerðum vegna strands gámaflutningaskipsins Víkartinds á Háfsfjöru árið 1997. Og hafa tekið þátt í aðgerðum vegna strands kemmtiferðaskipsins Costa Concordia við strönd eyjunnar Giglio á Ítalíu árið 2012.

Hvað veðrið varðar segir Kjartan það sé óbreytt; hvassviðri og mikill öldugangur eins og verið hefur í allan dag. Hann segir að það eigi ekki að ganga niður fyrr en í fyrramálið. 

Spurður um stöðuna á skipinu, segir Kjartan að það sitji enn fast á sínum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert