200 milljónir til að losna við biðlista

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að 200 milljónir króna þurfi á ári frá stjórnvöldum til að losna við biðlista á Vogi. Leggja þyrfti inn átta á dag í stað sex eins og nú er til að losna við biðlistann.

Í þættinum Silfrið á RÚV sagði hann ákaflega erfitt að fá fíknisjúkling til að þiggja meðferð og þegar hann loksins fellst á það endist sá vilji frekar skammt. Þess vegna sagði hann biðlistann á Vogi, upp á 590 manns, „gjörsamlega ófæran“ og að vegna biðlistans deyi töluvert stór hópur fólks.

„Það er faraldur af fíknisjúkdómum á Íslandi í dag og fólk er að deyja af þeim. Fíknisjúkdómar eru algengasti dauðdagi ungs fólks á Íslandi í dag á milli 18 ára og fertugs,“ sagði Kári.

Hann sagði það skringilegt að árið 1970 hafi verið um 140 rúm á sjúkrahúsum fyrir fíknisjúklinga en í dag séu þau 18. Meðferð hafi flust nær alfarið á herðar SÁÁ, sem leggur fólk inn á Vog.

Kári ásamt fleiri aðilum er að skipuleggja tónleika í Háskólabíói 8. nóvember, auk þess sem undirskriftasöfnun á akall.is er í gangi. Tilgangurinn er að tjá vilja samfélagsins til að eitthvað verði gert í málunum.

Kári sagði að á Vogi þurfi að finna leið til að skilja á milli barna og unglinga sem þar eru í meðferð. Ófært sé að hafa þar unglinga undir 17 ára aldri innan um „harnaða fullorðna fíkla“. Einnig sagði hann nauðsynlegt að skilja á milli kvenna og karla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert