Líklegt að við spilum á Íslandi

Proclaimers-tvíburarnir Craig og Charlie Reid.
Proclaimers-tvíburarnir Craig og Charlie Reid.

„Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði fyrst að lagið væri komið í fyrsta sætið á vinsældalista,“ segir Craig Reid, annar tvíburanna í The Proclaimers. Hann hlær að minningunni.

„Ég var á veitingastað í London með vini mínum, að borða karrý, þegar falleg, ljóshærð kona kom yfir til mín og spurði hvort ég væri ekki annar af The Proclaimers? Ég svaraði því játandi og þá sagði hún: „Þið eruð númer eitt í heimalandinu mínu!“ Ég hugsaði með mér að það gæti ekki staðist, hún gæti ekki verið að segja satt. Ég spurði hvaðan hún væri og hún svaraði „Íslandi“ svo ég bara þakkaði henni fyrir og fannst þetta forvitnilegt, fór svo næsta dag til útgáfufyrirtækisins okkar og þar komu allir af fjöllum og tóku að hringja til að spyrjast fyrir. Einhvern veginn komust þeir svo fljótlega að því að þetta væri satt, við áttum vinsælasta lagið á Íslandi!“

Craig er að sjálfsögðu að tala um stórsmellinn „I’m Gonna Be (500 Miles)“, sem hefur verið langvinsælasta lag The Proclaimers í 30 ár. Craig og tvíburabróðir hans, Charlie, stofnuðu The Proclaimers árið 1983, eftir að hafa prófað sig áfram í nokkrum skólapönksveitum fram að því. Þar tóku þeir alveg nýja stefnu í tónlistarsköpun, en lögin eru undir sterkum áhrifum skoskrar sveita- og þjóðlagatónlistar. Þeir eru enda mjög stoltir af uppruna sínum, ákafir stuðningsmenn sjálfstæðis Skotlands og hafa aldrei séð neina þörf á því að syngja með öðrum hreim en sínum eigin, sem er meðal annars það sem vakti athygli á þeim í upphafi. Skoskur aðdáandi þeirra átti líka sinn þátt í henni þegar hann sendi kassettu með tónlist þeirra til hljómsveitarinnar The Housemartins, sem leist svo vel á að þeir buðu The Proclaimers að hita upp fyrir þá á tónleikaferð um Bretland árið 1986.

Afkastamiklir og spilaglaðir

Ári síðar gáfu tvíburarnir út fyrstu breiðskífu sína, This Is the Story, en á henni má finna lagið „Letter from America“ sem náði talsverðum vinsældum á Íslandi og lenti í 3. sæti á breska vinsældalistanum. Þar er einnig sungið um erfiðleikana við að vera með sterkan, skoskan hreim sem þótti ekki par fínn í laginu „Throw the ‘R‘ Away“ og hið þjóðlagaskotna „Make My Heart Fly“ lifir enn góðu lífi. Önnur breiðskífa þeirra Craig og Charlie varð þó sú sem kom þeim á kortið um allan heim. Platan í heild sinni er nokkurs konar óður til bæjarhlutans Leith, sem var áður sérstök hafnarborg, þar sem tvíburarnir ólust að mestu upp og hvar þeir búa enn þann dag í dag. Á þeirri plötu má finna vinsæl lög á borð við „Oh Jean“, titillagið „Sunshine on Leith“ og „I’m on My Way“ að ógleymdum stórsmellnum „I’m Gonna Be (500 Miles)“ sem hefur fyrir löngu skipað sér sess með ódauðlegum smellum tónlistarsögunnar.

Aldrei komið til Íslands

En þrátt fyrir að 30 ára sigurganga „500 Miles“ hafi í raun hafist á Íslandi hafa The Proclaimers aldrei komið til Íslands. „Nei, ég þekki marga sem hafa farið þangað í frí en ég hef aldrei komist sjálfur. Okkur hefur verið boðið að halda tónleika þar en það hefur aldrei hentað. Við ætluðum að reyna að koma því að áður en við fórum til Kanada, til að ná afmælisárinu, en það gekk bara ekki upp,“ segir Craig og hikar en bætir svo leyndardómsfullur við: „Ég tel það reyndar mjög líklegt að við spilum á Íslandi innan skamms, við viljum það mjög mikið.“ 

Ég tjái honum að lagið hafi náð toppsætinu á Íslandi nákvæmlega 11. nóvember 1988 og spyr hvort þeir bræður ætli að minnast þeirra tímamóta á einhvern hátt? „Ég er ekki alveg viss hvar við verðum þá, ég held að við verðum með tónleika einhvers staðar í Skotlandi en þarf að fletta því upp. En jú, núna ætla ég að reyna að muna dagsetninguna og skála fyrir Íslendingum þá og færa þeim þakkir fyrir að hafa verið fyrstir í heiminum til að setja lagið okkar í sæti númer eitt!“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert