Niðurstaðan auðveldar verkið

Nýtt sameinað sveitarfélag vestast á Reykjanesi fær nafn sitt fljótlega.
Nýtt sameinað sveitarfélag vestast á Reykjanesi fær nafn sitt fljótlega. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mér líst vel á niðurstöðuna og þrátt fyrir að við hefðum viljað fá 50% þátttöku þá er niðurstaðan mjög afgerandi. Það er gott fyrir bæjarstjórn og auðveldar henni verk sitt,“ segir Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs.

Íbúar sveitarfélagsins gengu til kosningar um nýtt nafn á sveitarfélaginu í gær og varð nafnið Suðurnesjabær hlutskarpast. Kosningaþátttaka var 34,44% og hlaut Suðurnesjabær 75,3% atkvæða. Nöfnin Sveitarfélagið Miðgarður og Heiðarbyggð lutu í lægra haldi með 17,1% og 6,1% atkvæða.

„Við lögðum upp með að reyna að fá sem flesta á kjörstað og gáfum það út að ef fleiri en 59% íbúa mættu á kjörstað og eitthvað nafn fengi yfir 50% atkvæða yrði það endanleg niðurstaða,“ segir Einar.

Einar Jón Pálsson.
Einar Jón Pálsson. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstaðan er því ekki bindandi en bæjarstjórn þarf að taka endanlega ákvörðun um nafnið. Verður það gert á bæjarstjórnarfundi 7. nóvember. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að tillagan um nafnið Suðurnesjabær verði lögð fyrir og geri ekki ráð fyrir öðru en að hún verði samþykkt miðað við niðurstöðu kosningarinnar.“

Að lokum er það svo ráðherra sveitarstjórnarmála sem þarf að samþykkja nafnið.

„Við klárum okkar á miðvikudaginn og vonum að ráðherra verði fljótur að staðfesta nafnið svo við getum nefnt sveitarfélagið og haldið áfram með okkar verk.“

Aðspurður segir Einar athöfn vegna nafngiftarinnar ekki hafa verið rædda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert