„Besta lausnin í stöðunni“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

„Mér líst vel á fréttir dagsins úr því sem orðið var,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála í Kastljósi á RÚV í kvöld, innt eftir viðbrögðum við kaupum Icelandair Group á öllu hlutafé í WOW air.

Þórdís Kolbrún sagði að öruggar flugsamgöngur skiptu ferðaþjónustuna hérlendis öllu máli og að það væri mikilvægt að vera með sterkt íslenskt félag sem gæti staðið af sér sveiflur.

Hún sagði að stjórnvöld hefðu enga aðkomu haft að viðræðum félaganna tveggja, en að yfirtaka Icelandair Group á WOW air hefði verið ein þeirra sviðsmynda sem ríkisstjórnin hefði teiknað upp.

Ráðherra sagðist aðspurð telja að þessi lending væri að sínu mati „besta lausnin í stöðunni“ og að það hefði ekki orðið „sársaukalaust“ ef að WOW air hefði farið í þrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert