Fannst þetta eins og afplánun

Atvinnubílstjórar á stórum bílum þurfa að sækja tæplega vikulangt námskeið …
Atvinnubílstjórar á stórum bílum þurfa að sækja tæplega vikulangt námskeið á fimm ára fresti til að halda atvinnuréttindum sínum. mbl.is/Ómar Óskarsson

5.400 bílstjórar hafa nú sótt eitt eða fleiri endurmenntunarnámskeið fyrir ökumenn stórra bíla til farþega- eða vöruflutninga. Námskeiðin mælast misjafnlega fyrir meðal bílstjóra og stjórnenda flutningafyrirtækja en þau eru skilyrði fyrir endurnýjun réttinda til að aka stórum bílum í atvinnuskyni.

„Þetta kom mér fyrir sjónir nánast eins og afplánun. Mér fannst tíma mínum heldur illa varið. [...] Ég hugsa til þess með hryllingi að þurfa að fara á annað námskeið,“ segir Logi Óttarsson, rútubílstjóri og leiðsögumaður á Akureyri.

„Ég hafði mjög gott af þessu,“ segir Símon Hrafn Vilbergsson, rútubílstjóri á Akureyri. Hann segir að flestir bílstjórar á hans vinnustað séu jákvæðir gagnvart námskeiðunum. Óskar Stefánsson, formaður Bílstjórafélagsins Sleipnis, tekur mjög í sama streng. Segir að námskeiðin séu þörf upprifjun.

Rúnar Garðarsson, formaður hópferðanefndar Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að námskeiðin hafi ekki aukið mikið við þekkingu bílstjóra. Stundum sé eins og verið sé að búa til námskeið til að fylla ákveðinn tímaramma.

Tæplega 20 fyrirtæki í öllum landshlutum hafa fengið viðurkenningu Samgöngustofu til að halda námskeið fyrir bílstjóra. Búið er að halda tæplega ellefu hundruð námskeið. Meginhlutinn var haldinn á þessu ári, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Misjafnt er hvernig staðið er að greiðslu kostnaðar. Fyrirtækin greiða almennt námskeiðsgjöldin, 75 þúsund krónur í heildina, fyrir fastráðna starfsmenn og fá síðan endurgreitt úr sjóðum sem til þess eru ætlaðir. Rúnar bendir á að námskeiðsálag sé greitt á laun rútubílstjóra og þeir sem falli undir þá kjarasamninga hafi fengið greiðslur undanfarin ár til að standa undir tímanum sem í þetta fer.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert