Fréttu af úrræðinu í fjölmiðlum

Barnaverndarstofa.
Barnaverndarstofa. mbl/Arnþór Birkisson

Stjórn Olnbogabarna segir velferðarkerfið mismuna börnum þegar kemur að veikindum. Börn sem glími við margþættan vanda fái ekki öll þá þjónustu sem þau eigi rétt á og úrræði sem hóf starfsemi nýverið hafi verið sett á laggirnar án vitundar barnaverndarnefnda. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem þau hafa sent frá sér og vísa þar til fréttar RÚV í liðinni viku um að vistheimili fyrir ungmenni í fíknivanda hafi verið opnað en þar séu engin börn vistuð. Húsnæðið þar sem vistheimilið sé er til sölu og eftir áramót þurfi að leita að nýju húsnæði.

Yfirlýsingin í heild:

„Hvað heldur þú, er nauðsynlegt að skjóta þá?

Hvað heldur þú, er nauðsynlegt að skjóta þá?“

Á þessum nótum syngur Bubbi Morthens árið 1986 á plötunni Frelsi til sölu. Þessi orð komu upp í hugann þar [sem] ég sat í myrkrinu og horfði upp í stjörnubjartan himininn eftir enn eina fréttina þar sem komið er fram með yfirlýsingar sem margir setja spurningu um varðandi heiðarleika og virðingu við skjólstæðinga sína.

Frétt RÚV 

Við sem þjóð erum að mismuna einstaklingum eftir því hvaða sjúkdóm barnið er með og börn sem eru að kljást við margþættan vanda eru mörg hver ekki að fá þjónustu frá kerfunum.

Velferðarkerfið virðist velja sér sjúklinga og sjúkdóma:

Barn sem greinist með krabbamein fær mjög flotta þjónustu og það er allt reynt til að lækna það.

Barn sem greinist með geðsjúkdóm fær allt aðra þjónustu en barn með krabbamein.

Barn sem greinist með fíknisjúkdóm fær… Jæja við höfum öll sé[ð] fréttirnar upp á síðkastið.

[Börn] sem líður illa reyna oft að deyfa sársaukann og nota til þess mjög oft sjálfs[s]kaða. Ástæðan er oft sú að þau þora ekki að tjá sig og stundum hafa þau tjáð sig en fá samt ekki hjálp frá mennta-, heilbrigðis- eða félagslega kerfinu. Þau sjá að kerfin sem hafa brugðist öðrum börnum sem þau þekkja, sjá fréttir þar sem „fullorðna fólkið“ er ekki að sýna málefnum barna virðingu og heiðarleika.

Það liðu 189 dagar frá því að háttvirtur félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sagði það í fjölmiðlum að nýtt úrræði fyrir börn í vanda yrði opnað innan tveggja vikna. Loksins „opnaði“ þetta nýja úrræði en 189 dögum eftir tilkynninguna.

Börnin sem var lofað inn í þetta nýja úrræði af starfsmönnum Barnaverndarstofu eru flest orðin 18 ára og sum urðu átján nokkrum dögum fyrir 15. október. Vandi þessara barna er enn jafn mikill, þó þau séu orðin 18 ára gömul og teljist fullorðin. Sum þessara barna eru á götunni í dag og er það lífið sem þau eiga skilið?

Vandinn í kringum þetta allt er að viðeigandi aðilar eru að frétta þetta út af fréttinni hér að ofan og geta ekki sótt um fyrir skjólstæðinga sína því starfsmenn eru ekki búin að fá neinar upplýsingar til að sækja um.

Barnaverndarnefndir hafa staðfest þetta við okkur að þeir vissu ekki af þessu, fyrr en þau sáu þetta í fjölmiðlum. Starfandi forstjóri Barnaverndarstofu segir í fréttinni „að ekki hafi skapast vandi í millitíðinni“.

Við sem berum hag barna fyrir brjósti skiljum ekki alveg hvernig stofnun eins og Barnaverndarstofa kemur fram með svör og yfirlýsingar sem standast ekki skoðun.

Við erum í vanda þegar brotið er á réttindum barna samkvæmt barnasáttmála SÞ.

Við erum í vanda þegar börnum eru vísað frá neyðarvistun.

Við erum í vanda þegar börn eru vistuð í fangaklefa ú[r] því að ekki eru til úrræði.

Við erum í vanda þegar verið er að ræða við foreldra um að setja börn á götuna.

Við erum í vanda þegar börn eru ekki að fá viðeigandi þjónustu.

Við erum í vanda þegar börn sem voru skjólstæðingar Barnaverndarstofu eru orð[in] 18 ára [og] eru að deyja.

Við erum í vanda þegar barnaverndarnefndir eru ekki að fá svör fyrir skjólstæðinga sína frá Barnaverndarstofu.

Við erum í vanda þegar háttvirtur ráðherra hlutast til um það að koma barni inn á meðferðarheimili fram fyrir hina sem bíða.

Við erum í vanda þegar starfsmenn þora ekki að tjá sig um ástandið nema fyrir dómi.

Er ekki kominn tími til að standa saman og virða þau lög og þær reglur sem eru við lýði? Æi, var þetta ekki óþarfi?

Barnaverndarstofa hefur verið starfrækt síðastliðin 16 ár, án þess að eiga sér stoð í lögum.

Textinn hans Bubba á jafn mikið við í dag og árið 1986: „Seðlar stjórna lífinu auma, hvíslar brotin rödd.“

Þessi brotna rödd eru börn, foreldrar, systkini, afa, ömmur, frændur, frænkur, vinir og allir þeir sem er umhugað um velferð barna.

Virðingarfyllst stjórn Olnbogabarna,“ segir í opnu bréfi til þingmanna, ráðherra og yfirstjórnar Barnaverndarstofu.

mbl.is