Gæta ýtrustu varkárni í Helguvík

Hall­dór Karl Her­manns­son, hafn­ar­stjóri hjá Reykja­nes­bæ
Hall­dór Karl Her­manns­son, hafn­ar­stjóri hjá Reykja­nes­bæ mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er verið að vinna við þessa olíudælingu og í kringum hana eru ýmis rokgjörn efni, sem meðal annars geta valdið íkveikju- og sprengjuhættu. Við erum að vinna á öryggissvæði NATO og á einni helstu olíubirgðaflutningastöð landsins. Við verðum að gæta ýtrustu varkárni, enda er slökkvilið á svæðinu með brunavakt og tilbúið að bregðast við ef eitthvað kemur upp á,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri hjá Reykjanesbæ. Mbl.is tók hann tali fyrir utan athafnasvæðið á Helguvík, en þar er óviðkomandi meinaður aðgangur á meðan olídæling úr flutningaskipinu Fjordvik stendur yfir.

Á svæðinu séu einungis fulltrúar slökkviliðs, björgunarsveitar, Köfunarþjónustunnar og fulltrúar eigenda skipsins. „Allir sem ekki eiga hér heima í tengslum við framkvæmdina eiga að vera annars staðar.“

Gætt er ýtrustu varúðar meðan á dælingu stendur og eru …
Gætt er ýtrustu varúðar meðan á dælingu stendur og eru viðbragðsaðilar á staðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Karl segir dælingu hafa farið hægt af stað í gær en að betri tök séu að nást á henni og að góður gangur ætti að komast á hana eftir hádegi. „Það er ekki auðvelt að komast að tönkunum. Þessi eðlilegu op sem eru notuð við áfyllingar og tæmingar eru þannig staðsett að það er ekki hægt að komast að þeim. Menn verða því að fara í gegnum öndunargöt sem eru mjög þröng, en menn eru mjög klókir við þetta.“

Hann segir það ekki borga sig að nefna neinar tímasetningar varðandi það hvenær megi búast við að dælingu ljúki, en öll áhersla verði lögð á hana í dag. „Við viljum vernda umhverfið eins og mögulegt er.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kafarar frá Kafarþjónustunni hafa hafist handa við að skoða sementsflutningaskipið að neðan. Þar munu þeir taka myndir og meta hvernig skipið situr við hafnargarðinn.

„Út frá því geta menn myndað sér skoðun á því hvernig hægt er að loka skipinu og koma því í burtu,“ segir Halldór Karl.

Halldór Karl hefur verið með umsjón á vettvangi frá því að skipið strandaði og segir aðstæður mun betri í dag en verið hefur. Veðurspáin er ekki sérlega góð fyrir morgundaginn en að sögn Halldórs Karls er búið að gera ráðstafanir með því að binda skipið.

„Þeir sem hafa lagt hönd á plóg hingað til hafa staðið sig einstaklega vel. Við erum heppin að búa í þessu landi sem hefur svona frambærilegt fólk til að bregðast við þegar svona kemur upp.“

mbl.is