Kom ekki á óvart

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart en auðvitað höfum við fylgst grannt með þessum málum um nokkurt skeið,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um kaup Icelandair Group á WOW air.

Hún nefnir að rekstrarörðugleikar hafi verið hjá ýmsum flugrekendum, ekki síst á þessu svæði, þar á meðal vegna hækkandi olíuverðs. Flugfargjöld hafi á sama tíma verið lág.

Samkeppni áfram til staðar

„Við höfum fylgst grannt með sökum aukins mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir íslenskan efnahag. Við sjáum að markaðurinn tekur vel við þessum tíðindum, alla vega við fyrstu sýn. Það má ekki gleyma því að þó að þetta feli í sér að þessi íslensku flugfélög renni saman þá verður áfram samkeppni,“ segir hún og bendir á alþjóðlega samkeppni í því samhengi. Hátt í 30 félög bjóði upp á reglulegt flug til og frá Íslandi.

Flugvélar WOW air og Icelandair.
Flugvélar WOW air og Icelandair. mbl.is/Hallur

Átta sig betur á hlutverki flugrekstrarins

Hún segir að ríkisstjórnin muni halda áfram að fylgjast með stöðu mála. „Það góða við þetta, held ég, er að núna þegar við erum með breyttar aðstæður í efnahagslífinu áttum við okkur betur á hlutverki flugrekstrarins fyrir ferðaþjónustuna,“ segir hún og minnist á aukið vægi flugrekstrarins með tilliti til tengiflugs.

mbl.is