Yfirtakan betri en að keppa til dauða

Það kom framkvæmdastjóra EasyJet ekki á óvart að heyra af …
Það kom framkvæmdastjóra EasyJet ekki á óvart að heyra af yfirtöku Icelandair Group á öllu hlutafé í WOW air. mbl.is/Eggert

Johan Lundgren, framkvæmdastjóri lággjaldaflugfélagsins EasyJet, segir að yfirtaka Icelandair Group á öllu hlutafé í WOW air hafi ekki komið sér á óvart. Þessi orð lét hann falla á ferðasýningunni World Travel Market í Lundúnum í dag. Financial Times greinir frá þessu.

„Þau töldu sennilega að það væri betra að ná einu starfhæfu og arðbæru flugfélagi í stað þess að drepa og keppa hvort annað til dauða,“ hefur FT eftir Lundgren, í umfjöllun sinni um viðskiptin.

Miðillinn ræðir einnig við John Strickland, sem starfar sem ráðgjafi í fluggeiranum. Hann segir að tækifæri felist í yfirtökunni fyrir Icelandair Group, þar sem vörumerki WOW air höfði frekar til yngri flugfarþega, þúsaldarkynslóðarinnar.

Financial Times rifjar einnig upp þau gjaldþrot og yfirtökur sem hafa átt sér stað í fluggeiranum í Evrópu undanfarin tvö ár, en á þeim tíma hafa stór flugfélög á borð við Monarch, Air Berlin og Alitalia farið í þrot eða lent í verulegum vandræðum, auk þess sem minni félög á borð við Primera Air, þýska félagið Small Planet og belgíska félagið VLM hafi farið á hausinn á síðustu tveimur mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert