Aðkoma einkaaðila flýti framkvæmdum

Sigurður Ingi Jóhannsson á ráðstefnunni í Hörpu í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson á ráðstefnunni í Hörpu í dag. mbl.is/Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stefnir að því að leggja fram frumvarp á vorþingi um svokölluð PPP-félög, samvinnufélög ríkisins og einkaaðila, sem munu koma að og flýta einhverjum framkvæmdum í vegakerfinu sem eru á samgönguáætlun.

Þetta sagði Sigurður Ingi í erindi sem hann hélt á ráðstefnunni Flutningalandið Ísland sem Sjávarklasinn og Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir í Hörpu í dag.

Í máli Sigurðar Inga kom einnig fram að samfélagið væri orðið opnara og tilbúnara til þess að fara óhefðbundnar leiðir við uppbyggingu vegakerfisins – og vísaði þá til þess að aukinnar jákvæðni gætti gagnvart hugmyndum sem feli í sér einkaframkvæmdir og gjaldtöku í vegakerfinu.

Jón Gunnarsson, alþingismaður og forveri Sigurðar Inga í embætti samgönguráðherra, hefur um nokkurt skeið talað fyrir slíkum hugmyndum og flutti erindi á fundinum í Hörpu þar sem hann fór yfir það hvernig hægt væri að gera stórátak í uppbyggingu vegakerfisins með því að taka ýmis stór og fjárfrek verkefni í samgönguáætlun út fyrir sviga og byggja þau upp á skömmum tíma, eða um sex árum.

Jón Gunnarsson segist finna fyrir aukinni jákvæðni í garð gjaldtöku …
Jón Gunnarsson segist finna fyrir aukinni jákvæðni í garð gjaldtöku í vegakerfinu til þess að fjármagna vegaframkvæmdir. mbl.is/Hari

Jón ræddi um að með þessu móti mætti ráðast strax í framkvæmdir við að bæta þrjár helstu stofnleiðirnar út úr höfuðborginni, til Keflavíkur, austur fyrir Selfoss og í Borgarnes, auk margvíslegra minni framkvæmda víða um land. Framkvæmdirnar yrðu fjármagnaðar með langtímalánum og „hófleg veggjöld“ tekin af þeim sem nýti sér vegina.

„Ef við förum þessa leið breytast forsendur samgönguáætlunar. Fjárfrek verkefni yrðu tekin út fyrir samgönguáætlunina og þá losnar um fé til annarra verkefna,“ sagði Jón, sem einnig leggur til að gjaldtaka verði tekin upp í öllum jarðgöngum á Íslandi, til þess að tryggja jafnræði þegnanna. Þessar tillögur eru nú ræddar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í tengslum við nýja samgönguáætlun, sem hefur sætt töluverðri gagnrýni sveitarstjórnarfólks hringinn í kringum landið.

„Hvenær getið þið byrjað?“

Jón segir í samtali við blaðamann að hann hafi farið og kynnt þessar hugmyndir víða um land nú þegar og að almennt hafi umræðan tekið stakkaskiptu frá því að hann, sem þáverandi ráðherra samgöngumála, bryddaði fyrst upp á hugmyndum um gjaldtöku til þess að fjármagna kostnaðarsöm verkefni í vegakerfinu.

„Í dag er maður spurður miklu frekar á stöðunum bara: „Hvenær getið þið byrjað?“ og það er í sjálfu sér alveg raunhæft að það sé hægt að byrja á verkefnum þessu tengdum strax á vormánuðum á næsta ári ef að menn fara að spýta í lófana og Alþingi nær einhverri pólitískri samstöðu,“ segir Jón og bætir við að innan veggja þinghússins finni hann fyrir „miklu meiri áhuga og samstöðu um að stíga einhver svona skref en hefur verið áður“ frá kollegum sínum í mörgum flokkum, í stjórn jafnt sem stjórnarandstöðu.

Frá ráðstefnu Sjávarklasans og Samtaka atvinnulífsins í dag.
Frá ráðstefnu Sjávarklasans og Samtaka atvinnulífsins í dag. mbl.is/Hari

Að sögn Jóns var umræðan bæði inni á þingi og úti í samfélaginu mun neikvæðari í fyrra, en nú sé líkt og fólki sé að verða ljóst að hugsanlega þurfi að hugsa út fyrir kassann.

„Fólki finnst þetta vera aukaskattheimta og það er eðlilegt að svona hugmyndir þurfi að fá að gerjast, en ég held að eftir því sem frá líður átti fólk sig á því að þetta er risaverkefni og að við verðum einhvern veginn að leita leiða til þess að kljúfa það með öðrum hætti heldur en að reikna með að það geti eingöngu komið úr ríkissjóði á næstu árum og áratugum.“

Sigurður Ingi segist ekki hafa skipt um skoðun

Sigurður Ingi sagði við blaðamann, spurður út í erindi Jóns, að hann teldi mjög mikilvægt að allir væru tilbúnir að hugsa út fyrir kassann þegar kæmi að fjármögnun nýframkvæmda í vegakerfinu.

„Mér fannst umræðan þegar við vorum að leggja fram samgönguáætlun í þinginu bera þess merki að það væru mun fleiri og nánast allir tilbúnir að fara í þá vegferð og við skulum bara sjá hvernig málunum gengur í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar í þinginu, en ég held að það séu allir sammála um það að við þurfum meira fjármagn,“ sagði Sigurður Ingi, sem síðan steig á svið og tilkynnti að til stæði að leggja fram frumvarp um samvinnufélög ríkis og einkaaðila (e. Public Private Partnerships), á vorþingi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Ingi í …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Ingi í forgrunni. mbl.is/Hari

Er Jón Gunnarsson var fyrst að viðra það sem nú eru tillögurnar sem hann kynnti um gjaldtöku til þess að fjármagna vegaframkvæmdir, vakti það litla hrifningu annarra stjórnmálamanna, meðal annars Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Sigurður Ingi sagði sjálfur í samtali við RÚV skömmu eftir að hann tók við embætti samgönguráðherra, að áætlanir um að leggja á veggjöld á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina til þess að fjármagna uppbyggingu þeirra yrðu lagðar á hilluna.

„Það er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við fréttamann RÚV og ræddi á svipuðum nótum í þættinum Víglínunni á Stöð 2 rétt fyrir jól.

Því var ekki úr vegi að spyrja samgönguráðherra hvort þarna væri um breytta afstöðu að ræða af hans hálfu.

„Nei ég hef aldrei breytt henni,“ segir Sigurður Ingi, en bætir við að hann hafi verið á móti vegtollahliðum sem almennri fjármögnunarleið, en aldrei verið á móti „Hvalfjarðarganga-módelinu eða öðrum slíkum verkefnum“.

Tíminn til framkvæmda núna

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hélt einnig erindi á fundinum í dag og ræddi þar um að það væri mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegakerfinu, eða um 130 milljarðar króna. Hann sagði tímann til framkvæmda vera núna, þar sem fyrirsjáanlegt væri að eftir kröftugan hagvöxt undanfarinna ára væri nú runnið upp skeið þar sem draga myndi úr vexti.

„Þá skapast svigrúm til framkvæmda,“ sagði Sigurður og bætti við að með hliðsjón af stöðunni í hagkerfinu og þeirri viðhalds- og uppbyggingarþörf sem er til staðar væri æskilegt að grípa til aðgerða og að einkaaðilar mættu koma að innviðauppbyggingu í meiri mæli.

Sigurður Hannesson segir að tíminn til þess að ráðast í …
Sigurður Hannesson segir að tíminn til þess að ráðast í innviðauppbyggingu sé runninn upp. mbl.is/Hari

„Við höfum séð mjög góð dæmi um aðkomu einkaaðila, til dæmis Hvalfjarðargöngin. Þau sinntu sínu hlutverki vel og hefur verið skilað aftur til hins opinbera. Við teljum að það megi horfa til þessa í meiri mæli,“ sagði Sigurður.

Vegagerðin tilbúin til samstarfs

Í pallborðsumræðum þar sem þau Sigurður Hannesson, Jón Gunnarsson og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar tóku þátt lýsti Bergþóra þeirri persónulegu skoðun sinni að það gætu verið tækifæri fólgin í samvinnu ríkis og einkaaðila við vegaframkvæmdir.

Hún benti þó á að aðrar þjóðir hefðu bæði mistök og sigra í farteskinu varðandi aðkomu einkaaðila að vegakerfinu og sagði mikilvægt að allar aðgerðir í þá áttina verði úthugsaðar og horft verði til reynslu annarra.

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri sagði að horfa ætti til reynslu annarra …
Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri sagði að horfa ætti til reynslu annarra þjóða varðandi aðkomu einkaaðila að uppbyggingu í vegakerfinu. Hún sé bæði góð og slæm. mbl.is/Hari

„Mistökin hafa haft gríðarlega afleiðingar en þar sem vel hefur tekist til hafa áhrifin verið jákvæð,“ sagði Bergþóra, sem nefndi Ítalíu sérstaklega sem dæmi um ríki sem hefði farið illa út úr aðkomu einkaaðila að vegakerfinu – þar hefði sú aðkoma farið úr böndunum.

Vegamálastjóri sagði þó að Vegagerðin verði tilbúin til samstarfs, verði þessar hugmyndir að veruleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert