Aldur kennitölu hefur áhrif á hæfi

Í skilmálum rammasamnings Strætó bs. er tilgreint að Strætó geti …
Í skilmálum rammasamnings Strætó bs. er tilgreint að Strætó geti hafnað umsókn fyrirtækis, leiði skoðun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda umsækjanda í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot er varðar umsækjanda, stjórnendur eða eigendur fyrirtækisins. mbl.is/Hjörtur

Aldur kennitölu fyrirtækisins Far-vel virðist meðal þeirra þátta sem gera fyrirtækið hæft til að taka við rammasamningi Prime Tours, þrátt fyrir að báðir skráðir stjórnarmenn og einn núverandi eigenda tengist nýlegu gjaldþroti síðarnefnda fyrirtækisins.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði innkaupadeildar Reykjavíkurborgar, vegna óskar Strætó bs. um álit á hæfi Far-vel til að taka yfir samning Strætó bs. við Prime Tours á akstursþjónustu fatlaða.

Greint var frá því í morgun að Strætó hafi gert samning við Far-vel ehf. sem full­næg­i öll­um hæfis­skil­yrðum ramma­samn­ings­ins. Far-vel var stofnað 1999, en var í dvala frá 2008 þar til það var endurvakið 25. september sl.  og er með gilt rekstrarleyfi. Ekki kemur fram hvort að fyrirtækið hafi gengið kaupum og sölu á þessum tíma.

Trúnaði hefur verið aflétt af minnisblaðinu, en þar kemur fram að tveir stjórnarmenn fyrirtækisins Far-vel eru þeir sömu og voru í stjórn fyrirtækisins Prime Tours, sem lýst var gjaldþrota um miðjan síðasta mánuð. Þessir sömu stjórnarmenn eiga einnig sæti í stjórn fyrirtækisins Taxi Tours ehf. sem er á vanskilaskrá Credit info með nýlegt árangurslaust fjárnám.

Geta hafnað umsókn vegna gjaldþrots

Eigendur Far-vel eru þau Þórunn Alexandersdóttir, Helgi Þór Guðmundsson og Hópsnes ehf. en Þórunn ásamt Hjörleifi Harðarsyni er stjórnarmaður í áðurnefndum fyrirtækjum.  Aðrir eigendur Farvel en Þórunn eru ekki á vanskilaskrá fyrirtækja vegna sambærilegrar atvinnustarfsemi að því er fram kemur í minnisblaðinu.

Í skilmálum rammasamnings Strætó bs. er tilgreint að Strætó geti hafnað umsókn fyrirtækis, leiði skoðun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda umsækjanda í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot er varðar umsækjanda, stjórnendur eða eigendur fyrirtækisins.

Í áliti innkaupasviðs segir að fyrir liggi „að báðir skráðir stjórnarmenn umsækjanda, og þar af einn núverandi eigandi, tengjast nýlegu greiðsluþroti tveggja fyrirtækja í sambærilegri atvinnustarfsemi,“ segir í minnisblaðinu. Skilyrði rammasamningsins um „nýja kennitölu“ sé hins vegar ekki uppfyllt þar sem kennitala Far-vel sé frá árinu 1999 og „af því leiðir að umræddri umsókn verður ekki hafnað með vísan til framangreinds ákvæðis“.

Far-vel gerði tilboð í rekstr­ar­vagna þrota­bús­ Prime Tours og buðu starfs­fólki fyrirtækisins áfram­hald­andi starf og hafði skiptastjóri þrotabúsins óskað eftir samþykki Strætó bs. á framsali ramma­samn­ings til Far-vel. Í minnisblaði innkaupasviðs segir að vert sé að halda til haga að í umsókn Far-vel komi fram skýringar á því hvernig reynt hafi verið að afstýra greiðsluþroti Prime Tours. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert