Búnir að ná 95-98% olíunnar úr skipinu

Nóttin var erfið veðurfarslega séð, en búið er að dæla …
Nóttin var erfið veðurfarslega séð, en búið er að dæla miklum þeirrar olíu sem næst úr skipinu sem er skorðað við hafnargarðinn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Búið er að ná miklum meirihluta þeirrar olíu sem hægt verður að ná úr sements­flutn­inga­skip­inu Fjor­d­vik sem strandaði í Helgu­vík um helg­ina, að sögn Halldórs Karls Hermannssonar, hafnarstjóra í Reykjaneshöfn. „Nóttin var erfið veðurfarslega séð, en þeim tókst að ná að mestu leyti öllu því sem þeir telja sig geta náð,“ segir hann.

Nú tekur við bið eftir háfjöru áður en reynt verður að fara um borð. „Það er ekki ráðlegt að fara um borð eins og er,“ segir Halldór Karl og kveður skipið sitja betur á háfjöru sem verði undir hádegi í dag.

„Þá ætla þeir að reyna að taka innansleikjurnar af olíu á þeim stöðum sem þeir hafa möguleika á að fara á.“ Hann segir nú þegar búið að ná um 95-98% af þeirri olíu sem hægt verði að ná.

Ekki er enn farið að dæla sjó úr skipinu, en til stendur að gera það í dag og meta svo stærð lekans út frá því hve fljótt það fyllist aftur. „Það verður vera öruggt að fara um borð til að hægt sé að fara í það,“ útskýrir Halldór Karl. „Þeir eru núna að tryggja festingar betur, vinna sér í haginn og skapa meira öryggi.  Síðan er líka verið að bíða eftir búnaði erlendis frá sem lenti með vél í morgun og verið er að vinna í að koma á svæðið.“

Markmiðið er að fjarlægja sem fyrst skipið, því annars er hætta á að það haldi áfram að skemmast við hafnargarðinn.

Djúp lægð suðvest­ur af land­inu stjórn­ar veðrinu næstu daga og hef­ur verið gef­in út gul viðvör­un fyr­ir nán­ast allt landið. Segir Halldór Karl hana klárlega geta hamlað öllu björgunarstarfi, en telur hins vegar ólíklegt að veðrið valdi enn frekari skemmdum á skipinu.

„Það er alltaf hætta,“ segir hann. Menn telja samt ekki að hún sé svo mikil, en það gerði svo sem engin ráð fyrir að skipið myndi stranda, þannig að við vitum ekkert hvað næstu dagar bera í skauti sér.“

Ekki sé hins vegar hægt að gera mikið meira en búið er að gera til að tryggja öryggi skipsins. „Svo verður bara framvindan að sýna sig.“

Búið er að ná um 95-98% af þeirri olíu sem …
Búið er að ná um 95-98% af þeirri olíu sem hægt verður að ná úr Fjordvik. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert