Eyþór skýtur föstum skotum á Viðreisn

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna. mbl.is/Eggert

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýna harðlega frumvarp að fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir árið 2019 og fimm ára áætl­un 2019-2023 sem var lagt fram í borgarstjórn í dag.

Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins kemur fram að fyrir átta milljarða vaxtakostnað borgarinnar væri hægt að byggja sex leikskóla í hæsta gæðaflokki fyrir 1400 börn.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir áætlunina sem lögð var fram í dag sé mikið breytt frá þeirri fimm ára áætlun sem samþykkt var fyrri ári síðan. „Við sjáum að skuldir og skuldbindingar eru 38 milljörðum hærri á tímabilinu en áætlað var fyrir ári síðan. Það er svakalega há tala,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is.

Eyþór gagnrýnir Viðreisn en flokkurinn var ekki í meirihluta í fyrra. „Við erum að horfa á fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta þar sem Viðreisn er komin inn. Sá flokkur hefur talað fyrir ábyrgum rekstri og lækkun skulda og manni bregður dálítið í brún þegar breytingin felst í þessari miklu skuldaaukningu.

Eyþór segir að vaxtagjöldin hækki um tvö milljarða á ári og því sé átta milljörðum meira sem borgin greiði í vexti en gert var ráð fyrir í fyrra. „Var verið að fela eitthvað fyrir kosningar eða eru þetta nýjar áherslur með Viðreisn; að fara í meiri útgjöld?

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði til að útsvar í borginni yrði lækkað en Eyþór segir það í lögleyfðu hámarki og leggist þungt á launafólk. „Þarna gæti Reykjavíkurborg lagt sitt af mörkum til að leysa kjaramálin án þess að fara í verðbólguhækkanir,“ segir Eyþór og bætir við að um sé að ræða raunverulegan kaupmátt fyrir fólk.

„Þetta eru 700 milljónir sem við viljum skilja eftir í veskjunum,“ segir Eyþór. Hann bendir á að hægt sé að hagræða í rekstri og ekki eigi að fara í fleiri áhættuverkefni þar sem einkaaðilar hagnist á kostnað skattgreiðenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert