Hefur greitt 42 milljarða til kirkjunnar

Akureyrarkirkja.
Akureyrarkirkja. mbl.is/Hjörtur

Kirkjujarðasamkomulag ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 1998 hefur skilað kirkjunni samtals rúmlega 42 milljörðum króna miðað við verðlag þessa árs, en fjármunirnir eru hugsaðir sem greiðslu fyrir kirkjujarðir sem ríkið tók yfir á sínum tíma og fara í að greiða laun presta og starfsmanna kirkunnar.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata.

Féð hefur annars vegar runnið til embættis biskups Íslands og hins vegar í Kristnisjóð. Fjármálaráðherra segir að við gerð samkomulagsins hafi verið horft til ítarlegs álits kirkjueignanefndar og þeirrar umfjöllunar á eignum sem þar kemur fram.

„Ekki var farið í sjálfstæða rannsókn eða verðmat á öllum þeim eignum sem til álita komu enda hefði þurft að rannsaka sögu hverrar landspildu eða jarðar fyrir sig, í sumum tilvikum jafnvel margar aldir aftur í tímann.“

mbl.is