Þurfa að fjarlægja spilliefni

Olíudæling úr skipinu hefur staðið yfir síðan á sunnudagskvöld.
Olíudæling úr skipinu hefur staðið yfir síðan á sunnudagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú hefur stærstum hluta olíunnar verið dælt úr flutningaskipinu Fjordvik sem strandaði í Helguvík og þegar önnur spilliefni hafa verið fjarlægð gerir Umhverfisstofnun ráð fyrir því að draga sig í hlé og fylgjast með af hlíðarlínunni.

„Starfsmenn okkar hafa verið á staðnum frá því að olíudæling hófst og staðan verður endurmetin þegar dælingu lýkur. Okkur er mikið í mun að koma olíunni í örugga höfn. Svo eru þarna eitthvað af spilliefnum sem þarf að losa frá borði og áætlanir um það liggja fyrir,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Að því loknu, þegar mesta hættan á umhverfisslysi verður liðin hjá, verður hlutverki stofnunarinnar vegna strandsins að mestu lokið, „Nema auðvitað ef hafnaryfirvöld óska eftir áframhaldandi aðkomu okkar.“

Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar eru spilliefnin um borð vel varðveitt, en Ólafur segir engu að síður mikilvægt að þau verði fjarlægð áður en ráðist verður til atlögu við flutning skipsins.

Rúmlega 100 tonn af olíu voru um borð í Fjordvik þegar skipið strandaði og stefnt var að því að dæla um 80 tonnum úr skipinu og í morgun hafði stærstum hluta þess verið dælt yfir í olíuflutningabíla. Aðspurður hvað verður um olíuna sagði Ólafur að Umhverfisstofnun hefði leiðbeint björgunaraðilum um þá aðila sem hafa starfsleyfi til þess að meðhöndla olíu sem þessa og meta það hvort hægt yrði að endurvinna hana eða hvort gengið yrði frá henni með viðeigandi hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert