Breytingar á rammasamningi nær ómögulegar

mbl.is/Ernir

Miklar takmarkanir eru á mögulegum breytingum á umfangi þjónustugetu þeirra sem gert hafa rammasamning við Strætó bs. um akstursþjónustu fatlaðra og ber Strætó að framkvæma samningin í samræmi við efni hans út samningstímann, sem er til loka næsta árs.

Þetta er álit innkaupadeildar Reykjavíkurborgar sem Strætó óskaði álits hjá á því hvort að til greina kæmi að fyrirtæki sem þegar sinna akstursþjónustu fatlaðra fjölguðu þeim bílum sem þau nota nota til að sinna akstursþjónustunni og sinntu þannig hluta þess aksturs sem fyrirtækið Prime Tour gerði áður en það varð gjaldþrota í síðasta mánuði.

Greint var frá því í gær að Strætó hafi gert samn­ing við Far-vel um að yfirtaka rammasamning Prime Tours.  Far-vel var stofnað 1999, en hafði legið í dvala um tíu ára skeið áður en það var endurvakið í haust. Var það mat innkaupadeildar að þar sem ekki séu um að ræða fyrirtæki með nýja kennitölu verði umsókninni ekki hafnað að grundvelli þess að báðir skráðir stjórn­ar­menn og einn nú­ver­andi eig­enda teng­ist ný­legu gjaldþroti Prime Tours. Fyrirtækið full­næg­i þar með öll­um hæf­is­skil­yrðum ramma­samn­ings­ins.

Tveir sýnt áhuga á akstrinum

Nokkurrar óánægju hefur gætt hjá eigendum annarra fyrirtækja sem einnig sinna akstursþjónustunni um að samið hafi verið við Far-vel vegna tengslanna við Prime Tours og var haft eftir Andrési Eyberg Magnússyni, fulltrúa  óánægðra undirverktaka, í kvöldfréttum RÚV í gær að um kennitöluflakk væri að ræða.

Strætó bs. hafði óskað eftir því við innkaupadeild að mat yrði lagt á hvort að tillögur annarra rammasamningshafa gætu komið til álita um fjölgun rekstrarvagna „innan þeirra rammasamninga“, en tveir rammasamningshafar hafi lýst sig reiðubúna að skoða breytingar á sínum rammasamningi varðandi fjölda bíla og breytinga á flokkun þeirra. 

Innkaupadeild virðist hins vegar þeirra skoðunar að ómögulegt sé að fjölga bílum annarra samningshafa.  „Allar breytingar á mögulegri aukningu á þjónustugetu einstakra rammasamningshafa eru nánast ómögulegar,“ segir minnisblaði innkaupadeildar, sem dagsett er 2. nóvember.

Í minnisblaðinu segir að samkvæmt skilmálum rammasamningsins megi akstursaðili engin auka- eða viðbótarverk vinna, „nema samkvæmt skýlausum fyrirmælum frá Strætó“. Þá séu Strætó „veruleg takmörk sett varðandi mögulegar breytingar á einstökum samningum við rammasamningshafa“.

Skoða þyrfti breytingar á hverjum bíl

Rammasamningarnir tiltaki hve marga bíla hvert fyrirtæki ætli að nota fyrir ferðaþjónustuna og tiltekið sé í einu ákvæði samningsins að sérhæfður búnaður fyrir farþega í hjólastól verði að vera inni í matið.  

Segir í álitinu að gæði rekstrarvagna hafi legið til grundvallar endanlegu mati á hagkvæmni tilboðanna, auk þess sem kveðið sé á um forgangsröðun sem byggi á að fyrst sé gerður samningur við þann sem bauð hagstæðasta tilboðið og svo koll af kolli.

Fjölgun rekstarvagna umfram þann fjölda sem er tilgreindur í tilboði rammasamningshafa geti hins vegar haft áhrif á hvort að þjónusta annarra rammasamningshafa verði nýtt og verði  „því ekki séð að slíkar breytingar séu heimilar“.

Skoða þyrfti nánar tillögur um breytingar á hverjum bíl fyrir sig, með tilliti til áðurnefndar forgangsröðunar, og því sé ekki hægt að leggja mat á þær tillögur.

Ekki heimilt að sinna þjónustu með sama hætti og leigubíll

Strætó bs. óskaði einnig álits á því hvort að rammasamningshafa sé heimilt að sinna þjónustunni með sama hætti og leigubílar og er það mat þeirra sem álitið unnu að engar heimildir fyrir slíku sé að finna í samningnum.

Miklar takmarkanir eru á mögulegum breytingum á umfangi þjónustugetu og „það sé fyrst þegar rammasamningshafar geti ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt rammasamningum sem kaupanda getur verið heimilt að kaupa þjónustuna af aðilum utan samningsins,“ segir í álitinu og er bent á niðurstöðu kærunefndar útboðsmála frá 2015. Strætó verði því að stíga varlega til jarðar varðandi slík kaup og tryggja að unnt sé að sýna fram á að kaupin fari bara fram við þær aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert