Ekki þörf fyrir umboðsmann flóttamanna

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er talin ástæða til að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns VG.

Alþingi samþykkti um miðjan október fyrir tveimur árum að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að láta gera fýsileikakönnun á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi. 

Samkvæmt þingsályktun átti að gera Alþingi grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar með skýrslu fyrir 1. september 2017. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. mbl.is/Hari

Ráðuneytið hefur endurnýjað samning milli Rauða krossins á Íslandi og Útlendingastofnunar um að annast talsmannaþjónustu við umsækjendurna auk ákveðinnar félagslegrar þjónustu,“ segir í svari ráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar og að það hafi verið gert í kjölfar útboðs á þjónustunni.

Enn fremur segir í svarinu að hlutverk talsmanns sé að leiðbeina skjólstæðingi varðandi meðferð máls fyrir stjórnvöldum, veita virka aðstoð sem fyrst og fremst tekur mið af hagsmunum og réttarstöðu skjólstæðingsins og veita hlutlausar og óhlutdrægar upplýsingar ásamt annarri einstaklingsmiðaðri þjónustu. 

„Lögð er áhersla á að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd sé aðgengileg og flækjustigi haldið í lágmarki fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut. Þá hefur nefnd um samræmda móttöku flóttafólks einnig unnið að kortlagningu á þeirri þjónustu sem flóttafólk hefur fengið í kjölfar þess að hafa sótt um alþjóðlega vernd og gerð tillagna að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk,“ segir í svari ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert