Nýtrúlofaður með kókaín í brókinni

Fíkniefnaleitarsérfræðingar sögðust aldrei hafa séð pakkningar eins og þær sem …
Fíkniefnaleitarsérfræðingar sögðust aldrei hafa séð pakkningar eins og þær sem mennirnir tveir voru með í nærbuxum sínum. mbl.is/Ófeigur

Tveir erlendir karlar hafa verið dæmdir í 18 mánaða fangelsi fyrir að flytja tæp 700 gr. af kókaíni til landsins. Þeir komu með flugvél Icelandair frá Amsterdam í mars ásamt unnustu annars þeirra og voru báðir með tæp 350 gr. af sterku kókaíni í nærbuxum sínum. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness fyrir viku síðan.

Mennirnir hafa báðir verið búsettir hér á landi um nokkurt skeið og héldu utan í orlofsferð í mars. Fyrir dómi sagði annar maðurinn að tilefni ferðalagsins hefði verið væntanlegt brúðkaup vinar síns og unnustu hans, sem höfðu verið saman í mánuð. Fyrst hélt fólkið til Litháen þar sem parið kynnti hvort annað fyrir verðandi tengdaforeldrum sínum og síðan fór hópurinn til Barselóna á Spáni, þar sem bónorðið var borið upp.

Missaga um uppruna kókaínsins

Frá Barselóna var svo haldið til Amsterdam í Hollandi. Þar kom kókaínið inn í myndina, en mönnunum greindi á um uppruna þess fyrir dómi.

Annar þeirra, sá sem ekki var nýbúinn að fara á skeljarnar á Spáni, sagði að kókaínið hefði hann fundið fyrir tilviljun á snyrtingu á flugvellinum í Amsterdam og ákveðið, sökum þess að hann var undir áhrifum áfengis, að stinga því inn á sig. Hann sagðist fyrir dómi ekki hafa vitað hvað væri í pakkanum.

Sá nýtrúlofaði sagði hins vegar að hann hefði keypt kókaínið í Amsterdam og pantað það  áður en lagt var upp frá Íslandi. Hann sagði efnið til eigin neyslu og sagði maðurinn fyrir dómi að á þessum tíma hefði hann verið að nota 3-6 gr. af kókaíni á degi hverjum. Hann sagði hvorki félaga sinn né unnustu sína hafa vitað af fíkniefnainnflutningnum.

Létu eins og þau þekktust ekki í Fríhöfninni

Lögreglumaður sem bar vitni fyrir dómi sagði að fylgst hafi verið með fólkinu er þau komu til landsins, vegna gruns um að þau tengdust innbrotum höfðu verið hér á landi.

Það vakti athygli lögreglu að fólkið lét eins og það þekktist ekki þegar þau komu til landsins og eftir að för þeirra var stöðvuð, þrátt fyrir að fyrir hefði legið að þau hefðu verið að ferðast saman.

Pakkningarnar eins og „skúlptúr“

Aðalvarðstjóri við embætti Tollstjóra lýsti kókaínpakkningunum sem „nákvæmlega eins“ að lögun og umbúnaði. Hann sagði þær einnig mjög sérstæðar og að á 30 ára ferli í fíkniefnaleit hefði hann aldrei séð pakkningar sem útbúnar hefðu verið með þessum hætti. „Þær hefðu verið nánast eins og skúlptúr,“ segir í dóminum um lýsingar vitnisins og annar tollsérfræðingur tók undir þetta.

Sá sagðist á 28 ára ferli sínum við fíkniefnaleit aldrei hafa séð pakkningar líkar þessum áður, en þær munu hafa verið „vafðar með límbandi og mótaðar þannig að þær pössuðu vel í nærbuxurnar.“

Efnið talið ætlað til sölu

Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að framburður mannanna, um að þeir hefðu ekki vitað af fíkniefnainnflutningi hvors annars, væri ótrúverðugur. Því taldi dómurinn ljóst að ákærðu hefðu staðið að innflutningi efnanna í sameiningu og taldi einnig að miðað við styrkleika efnisins og magni þess mætti slá því föstu að ætlunin hefði verið að selja dópið í ágóðaskyni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert