Borgaraþjónustan aðstoðar báða mennina

Tveir Íslend­ing­ar eru í haldi lög­regl­unn­ar í Ástr­al­íu eft­ir að …
Tveir Íslend­ing­ar eru í haldi lög­regl­unn­ar í Ástr­al­íu eft­ir að kókaín fannst í fóðri ferðatösku á flug­vell­in­um í Mel­bour­ne. Ljósmynd/Ástralska alríkislögreglan

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur átt í samskiptum við báða mennina sem eru í haldi lögreglunnar í Ástr­al­íu vegna gruns um fíkni­efna­smygl. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í samtali við mbl.is. Starfsmenn borgaraþjónustunnar hafa átt í samskiptum við mennina og fjölskyldur þeirra.

„Þetta er hefðbundin borgaraþjónusta og aðstoð við Íslendinga í vanda erlendis,“ segir Sveinn og bætir við að mönnunum stendur aðstoðin til boða eins lengi og þurfa þykir. Hann gat hins vegar ekki staðfest hvort aðstoðin felst í að útvega lögmenn, en það er meðal þjónustu sem borgaraþjónustan getur veitt í tilfellum þar sem Íslendingar eru handteknir eða fangelsaðir erlendir.  

Mennirnir voru handteknir á mánudag og fram kemur í tilkynningu á vefsíðu áströlsku alríkislögreglunnar að mennirnir eru 25 ára og 30 ára. Sá yngri var hand­tek­inn á flug­vell­in­um í Mel­bour­ne eft­ir að fjög­ur kíló af kókaíni fund­ust í far­angri hans. Rann­sókn leiddi lög­reglu svo á slóðir hins eldri sem var hand­tek­inn á hót­el­her­bergi. Þar hafði lög­regl­an fundið 2,7 kíló af kókaíni.

Sá yngri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. febrúar og gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Sá eldri var leiddur fyrir dómara í gær en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum hefur ekki fengist staðfestur.

Vilja bara sjá snjó í Game of Thrones 

Greint hefur verið frá handtökunum á Facebook-síðu áströlsku alríkislögreglunnar og þar er tilkynningin öllu frjálslegri en á vefsíðu embættisins. „Veturinn nálgast (e. Winter is coming) fyrir tvo íslenska ríkisborgara,“ segir í upphafi færslunnar og er það verið að vísa í sjónvarpsþættina Game of Thrones, sem hafa að hluta til verið teknir upp á Íslandi. 

Þá segist lögreglan aðeins vilja sjá snjó í Game of Thrones. Tilvísunin er margþætt, hin augljósasta er að orðið snjór hefur verið notað yfir kókaín á ensku en Snow er einnig eftirnafn einnar af aðalpersónum þáttanna, auk þess sem söguhetjurnar þurfa oft að fást við hin ýmsu verkefni þegar allt er á kafi í snjó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert