Dæmdur til að greiða 21 milljón í yfirdrátt

mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann á sextugsaldri til að greiða Arion banka 21 milljónar kr. yfirdráttarskuld. 

Maðurinn var með veltureikning í Sparisjóði Mýrasýslu og var skuldin til komin vegna heimildar sem sparisjóðurinn veitti honum til að yfirdraga reikninginn upp að tiltekinni fjárhæð og stofna þannig til skuldar við sjóðinn. Síðasta yfirdráttarheimild sem sparisjóðurinn samþykkti féll niður 20. apríl 2009, án þess að til framlengingar kæmi. Þar sem maðurinn greiddi ekki yfirdráttarskuldina á þeim degi var reikningnum lokað í kjölfarið, eða 29. janúar 2010. Nam þá uppsöfnuð skuld veltureikningsins 21.218.950 krónum, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Arion banki tók við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum Sparisjóðs Mýrasýslu vegna samruna félaganna 1. júlí 2010. 

Héraðsdómur segir, að varnir mannsins sýnist í fyrsta lagi byggjast á því að við veitingu yfirdráttarheimildarinnar til hans hafi bankinn ekki gætt sem skyldi að ákvæðum laga um neytendalán. Eigi það einkum við um ákvæði er lúti m.a. að vaxtastigi og umsömdum gjöldum á greiðslutíma samnings.

Fram kemur í dómnum, að í málinu liggi fyrir reikningsyfirlit frá árinu 1991 til ársloka 2016, sem beri með sér að hafa verið send til mannsins. Hafi yfirlitin að geyma sundurliðaðar upplýsingar um innborganir og úttektir, þar á meðal vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar. Á öllum yfirlitunum komi fram að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, en að öðrum kosti teljist reikningurinn réttur. Maðurinn hafi í sjálfu sér ekki mótmælt því að honum hafi borist umrædd yfirlit heldur vísað til þess að ekkert liggi fyrir þar um. Þá liggi heldur ekkert fyrir um að maðurinn hafi gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu bankans á vöxtum og kostnaði sem til féllu á þessum tíma. Að þessu virtu var ekki fallist á dómkröfur mannsins til sýknu eða lækkunar á þessum grundvelli.

Í annan stað studdi maðurinn dómkröfur sínar við það að skuldin hefði fallið niður vegna tómlætis bankans við innheimtu hennar og að hluta vegna fyrningar á vöxtum. Fyrir liggi að umræddum reikningi mannsins hjá bankanum hafi verið lokað 29. janúar 2010 og höfðu áfallnir skuldavextir þá mánaðarlega verið lagðir við uppsafnaðan höfuðstól skuldarinnar. Töldust þeir þar með hluti höfuðstólsins, sem fyrnist á 10 árum. Samkvæmt þessu, og þar sem dráttarvaxtakrafa bankans nái eingöngu til fjögurra ára tímabils áður en málið var þingfest 16. maí 2017, verði ekki séð að vextir hafi að neinu leyti fallið niður fyrir fyrningu.

„Af fyrirliggjandi reikningsyfirlitum verður ráðið að eftir að umræddum reikningi stefnda hjá stefnanda var lokað hafi stefnandi um hver áramót fengið sent yfirlit yfir stöðu skuldarinnar hverju sinni. Hafði stefndi því enga forsendu til að ætla að stefnandi hefði, áður en formleg innheimta skuldarinnar hófst með útsendingu innheimtubréfs í janúar 2016, fallið frá kröfu sinni á hendur honum. Þegar af þeirri ástæðu eru heldur engin efni til að líta svo á að skuldin hafi fallið niður sökum tómlætis af hálfu stefnanda,“ segir í dómi héraðsdóms sem tók dómkröfur bankans að fullu til greina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert