Prófílmyndir innleiddar á Íslendingabók

Nýtt útlit Íslendingabókar.
Nýtt útlit Íslendingabókar.

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á vef Íslendingabókar, sem hefur nú litið dagsins ljós í nýjum búningi. Notendur munu nú geta sett inn myndir af sér og ættingjum eða myndir sem tengjast sögu ættarinnar, auk greina um sig sjálfa eða nána látna ættingja, sem miðast við afkomendur langafa og langömmu. Með þessum breytingum, auk annarra, verður vefurinn vitanlega mun persónulegri heimild um ættir og fjölskyldur. 

Gagnvirkri Íslendingabók vel tekið 

Vefsíðan er orðin gagnvirk og fólk getur sjálft tekið þátt í að veita upplýsingar, að sögn Kristrúnar Höllu Helgadóttur, sagnfræðings hjá Íslenskri erfðagreiningu. Viðbrögð við breytingunum hafa ekki látið á sér standa, enda hafa töluverðar breytingar orðið á vefnum.

„Hægt er að setja inn prófílmyndir af forfeðrum, sem er nokkuð forvitnilegt. Þá kemur upp framætt í betra samhengi, vegna þess að þá fylgja myndir en ekki einungis nöfn. Við höfum fylgst með fjölda mynda sem búið er að setja á vefinn og hann hefur tekið kipp,“ segir Kristrún.   

„Fólk er að óska eftir aðgangsupplýsingum og það er aukin umferð um vefinn sem við finnum fyrir og mikil viðbrögð. Við fylgjumst með umferð um vefinn og yfir árið hafa verið vel yfir þrjú þúsund heimsóknir á dag, en þær hafa aukist núna.“

Vefur Íslendingabókar var settur á fót árið 2003 en síðan þá hefur margt breyst og segir Kristrún breytinguna vera í samræmi við nútímann. Frá stofnun síðunnar hafa yfir 231 þúsund notendur skráð sig og von er á að þeir verði enn fleiri. Hægt er að skrá sig með notendanafni og lykilorði en einnig er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Kristrún Halla Helgadóttir, sagnfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Kristrún Halla Helgadóttir, sagnfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Vefurinn í nútímabúning

Þá verður hægt að setja athugasemdir við æviágrip ættingja. Aðspurð segir Kristrún að athugasemdirnar muni ekki mynda spjallþræði heldur muni þær sendast beint á þann sem ritaði æviágripin.

Leitarforrit síðunnar, sem hafa notið mikilla vinsælda, hafa einnig verið bætt. Nú uppfærir vefurinn sjálfkrafa upplýsingar um elstu núlifandi ættingja, nýjustu barnsfæðingar og næstu afmæli skyldmenna.

Þá hentar vefurinn nú símum og spjaldtölvum auk þess sem leitarkerfið hefur verið einfaldað, en bæði er hægt að leita eftir nafni og texta, starfsheiti eða bæjarheiti.

Í tilefni af þessum áfanga efnir Íslensk erfðagreining til opins fræðslufundar á laugardaginn næstkomandi. Þar mun Kári Stefánsson fjalla um Íslendingabók sem verkfæri við vísindarannsóknir, Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, mun flytja erindið „Með ættfræði á heilanum“ og Ármann Jakobsson rithöfundur flytur erindið „Ég em son Örgumleiða Geirólfssonar gerpis“.

Íslendingabók er mikilvægt verkfæri við erfðafræðirannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar. Hún var gerð aðgengileg á vefnum árið 2003 til að þakka þjóðinni fyrir stuðninginn sem hún hefur sýnt Íslenskri erfðagreiningu, en tugir þúsunda landsmanna hafa tekið þátt í vísindarannsóknum á vegum hennar. Nú er síðan ein af vinsælustu vefsíðum á Íslandi með um 140 þúsund heimsóknir á mánuði, enda er þjóðin þekkt fyrir mikinn ættfræðiáhuga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert