Synjun á greiðslu ekki í samræmi við lög

Umboðsmaður Alþingis komst nýverið að þeirri niðurstöðu að staðfesting úrskurðarnefndar …
Umboðsmaður Alþingis komst nýverið að þeirri niðurstöðu að staðfesting úrskurðarnefndar velferðarmála á synjun Tryggingastofnunar á umsókn fósturforeldris um umönnunargreiðslur hefði ekki verið í samræmi við lög. mbl.is/Ófeigur

Ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á umönnunargreiðslu til fósturforeldris sem var með barn í fóstri sem þurfti stuðning og eftirlit sérfræðinga vegna erfiðleika sinna var ekki í samræmi við lög.

Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis sem vísar í áliti sínu í lög um félagslega aðstoð en samkvæmt þeim er heimilt að greiða framfærendum fatlaðra og langveikra barna umönnunargreiðslur. Í lögunum er einnig mælt fyrir um að vistun barna utan heimilis skerði greiðslur.

Í málinu hafði barni verið ráðstafað í varanlegt fóstur og hafði þar lögheimili. Tryggingastofnun hafði komist að þeirri niðurstöðu í umönnunarmati að barnið þyrfti stuðning og eftirlit sérfræðinga vegna erfiðleika sinna. Stofnunin synjaði aftur á móti umsókn fósturforeldris um umönnunargreiðslur og var sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála. Niðurstaða stjórnvalda byggði einkum á því að barnið teldist vistað utan heimilis í skilningi laga um félagslega aðstoð og jafnframt væri vistunin greidd af félagsmálayfirvöldum í skilningi reglugerðar um slík mál. Í slíkum tilvikum féllu umönnunargreiðslur niður. Var einnig vísað til þess að fósturforeldri fengi greiðslur frá sveitarfélagi til að standa straum af framfærslu barnsins.

Barnið verið í umsjá fósturforeldris um langt skeið

Í kjölfarið leitaði fósturforeldrið til umboðsmanns og benti m.a. á að þrátt fyrir að það fengi greiðslur frá sveitarfélagi þá væru þær hugsaðar sem framfærsla heilbrigðs barns og því ótengdar veikindum þess. Barnið hefði verið í fóstri hjá því um langt skeið og verið á framfæri þess um árabil.

Í áliti sínu benti umboðsmaður á að við mat á því hvort barn í varanlegu fóstri teldist vistað utan heimilis þyrfti að hafa í huga að lög geri almennt ráð fyrir því að börn í varanlegu fóstri eigi lögheimili hjá fósturforeldrum sínum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður að með orðunum „vistun utan heimilis“ í skilningi laga um félagslega aðstoð, væri fyrst og fremst átt við það þegar barn dveljist annars staðar en í heimahúsi þess framfæranda sem sækir um umönnunargreiðslur. Ráðstöfun barns í varanlegt fóstur, þar sem barnið búi hjá fósturforeldri sem beri að framfæra það, teljist því ekki eitt og sér vistun utan heimilis í skilningi laganna. Afstaða úrskurðarnefndarinnar í þessu máli hefði því ekki verið rétt og synjun hennar á umsókn um umönnunarbætur ekki í samræmi við lög.

Í álitinu er mælt með því að nefndin tæki málið til nýrrar meðferðar ef viðkomandi óskaði eftir því og þá í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert