410 börn og ungmenni slösuðust á vinnumarkaði 2016

Mikilvægt er að fækka slysum á börnum og unglingum á …
Mikilvægt er að fækka slysum á börnum og unglingum á vinnumarkaði með öruggu starfsumhverfi. mbl.is/Ásdís

„Árið 2016 slösuðust 155 stúlkur, 15 til 19 ára, í vinnu og 240 strákar. Þrettán börn, 10 til 14 ára, og tvö yngri en 9 ára slösuðust á sama tíma í vinnu eða við komu á vinnuvettvang,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, en hann var einn þeirra sem héldu erindi á málstofu sem Vinnueftirlitið og umboðsmaður barna héldu á Hótel Natura í gær.

„Í okkar samfélagshroka erum við alltaf að hneykslast á aðstæðum barna sem vinna við hræðilegar kringumstæður úti í heimi. Slík umræða ætti að kalla á okkur að skoða hvernig erum við að tækla fyrstu aðkomu ungs fólks að vinnumarkaðnum og tryggja að þau komi örugglega heil heim,“ segir Kristinn og bætir við að sem dæmi þá hafi á síðustu tveimur til þremur árum verið tilkynnt um 23 beinbrot á börnum við vinnu, yngri en 18 ára. Fjórar tilkynningar hafi borist um ofraun á líkama, átta tilvik um slys vegna hættulegra efna og efnasambanda. Slys þar sem hvassir og beittir hlutir komu við sögu voru 47.

„Það er allstór hópur barna sem slasar sig með nægilega alvarlegum hætti til að það þurfi að tilkynna það til Vinnueftirlitsins á sama tíma og mjög skýrt er í öllum reglum að börn eigi ekki að vinna hættulega vinnu og tryggt skuli að öryggi barna sé alltaf í lagi. Samkvæmt þessum tölum eigum við svolítið í land með það,“ segir Kristinn.

17 sveitarfélög með áhættumat

Í fyrirlestri Eðvalds Einars Stefánssonar, sérfræðings hjá umboðsmanni barna, kom fram að atvinnurekanda sé skylt að framkvæma áhættumat og gera ráðstafanir til þess að tryggja börnum og unglingum öryggi og heilbrigði á vinnustað og veita þeim fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar til þess að tryggja öryggi þeirra. Eðvald fór yfir úttekt sem gerð var á umgjörð vinnuskóla í sveitarfélögum. Þar kom fram að í 59 sveitarfélögum af 73 sem svöruðu var boðið upp á vinnuskóla fyrir nemendur allt frá 7. bekk og upp í 10. bekk grunnskóla. Í 17 sveitarfélögum hafði áhættumat farið fram, 34 sveitarfélög höfðu ekki sinnt þeirri skyldu og 8 sveitarfélög vissu ekki hvort áhættumat hefði farið fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert