Ákærður fyrir skútuþjófnað

Eigandi Inook ásamt lögreglumanni um borð í skútunni eftir að …
Eigandi Inook ásamt lögreglumanni um borð í skútunni eftir að henni hafði verið siglt til lands að nýju. mbl.is/Alfons Finnsson

Ákæra hefur verið gefin út í tengslum við stuld á skútunni Inook. Skútan var leyst frá bryggju í Ísafjarðarhöfn 13. október og siglt í burtu. Fann þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar skútuna daginn eftir og var henni beint til hafnar á Rifi.

Karlmaður sem var handtekinn við komuna að Rifi og úrskurðaður í farbann hefur nú verið ákærður. Rúv sagði fyrst frá málinu, en lögreglan á Ísafirði staðfestir við mbl.is að ákæran hafi verið birt manninum fyrir nokkrum dögum og að þingfesting fari fram 12. nóvember.

Samkvæmt ákæru málsins er skútan metin á 750 þúsund evrur, eða um 100 milljónir íslenskra króna. Er maðurinn sagður hafa spennt upp hurð í stýrisrými skútunnar með skrúfjárni og komist þannig inn. Hann hafi ætlað að sigla henni til Skotlands eða Færeyja.

Er brot hans talið varða við 244. grein almennra hegningarlaga um þjófnað á fjármunum eða stórfellt þjófnaðarbrot. Getur slíkt brot varðað allt að sex ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert