„Algjör fásinna af hálfu ákæruvaldsins“

Þorgils vísar því alfarið á bug að hann hafi aðstoðað …
Þorgils vísar því alfarið á bug að hann hafi aðstoðað Sindra við flóttann. mbl.is/Eggert

„Það er algjör fásinna af hálfu ákæruvaldsins að gera því skóna að þetta sé ólögmætur verknaður eða einhverskonar aðstoð við meintan flótta. Ég hef enga heimild til að halda vegabréfinu hans,“ segir Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar, sem ákærður er í gagnaversmálinu svokallaða í samtali við mbl.is

Frávísunarkrafa í málinu var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun og þar sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum, að lögreglan hefði rökstuddan grun um að Þorgils hefði aðstoðað Sindra við að flýja úr fangelsinu og komast úr landi með því að afhenda honum vegabréf hans þegar framlengja átti gæsluvarðhald yfir honum. RÚV greinir frá því sem kom fram fyrir dómi í morgun. Meðal annars því að Alda Hrönn hafi sagt að vegabréfið hafi verið afhent án leyfis lögreglu og dómstóla. Þá hafi hún einnig sagt að maður í fangelsi ætti ekki að vera með vegabréf sitt og þaðan af síður maður sem væri í opnu úrræði.

Sindri flúði úr opna fangelsinu á Sogni um miðjan apríl og komst úr landi. Hann var svo handtekinn í Amsterdam í Hollandi nokkrum dögum síðar. Þorgils vísar því alfarið á bug að hafa aðstoðað Sindra við flóttann. Það að hann hafi afhent Sindra vegabréfið eigi sér mjög eðlilegar og löglegar skýringar.

„Staðreyndin er sú að í skýrslutöku, þegar Sindri var ennþá í einangrun, þá afhenti lögreglan mér vegabréf hans. Ég bað ekki um þetta vegabréf og óskaði ekki eftir því að fá það afhent, en fékk það engu að síður afhent. Eftir það var það á skrifstofunni hjá mér,“ segir Þorgils til að útskýra hvers vegna hann hafði vegabréf Sindra undir höndum.

Hann hafi svo farið í stutt frí og ekki hitt Sindra aftur fyrr en hann var kominn á Sogn og farið hafði verið fram á framlengingu gæsluvarðhalds yfir honum. „Hann bað mig um að koma með vegabréfið sitt og ég afhenti honum vegabréfið fyrir framan lögreglu og sýndi lögreglu að ég væri að afhenda honum það.“

Þorgils bendir á að sem lögmaður Sindra sé hann með umboð frá honum og eigi að verja hagsmuni hans.

„Ef mér er afhent vegabréf hans þá er mér heimilt að afhenda honum það, fjölskyldu hans eða hverjum þeim sem hann óskar eftir að fái vegabréfið. Þegar ég fæ vegabréfið afhent þá er verið að afhenda umbjóðanda mínum vegabréfið. Mér ber hvorki skylda til að halda vegabréfinu frá manninum né er heimilt að halda eftir persónulegum skjölum,“ segir Þorgils.

„Þess má annars geta að það hefur komið í ljós, fyrir það fyrsta að þetta var ekki flótti úr fangelsi og í öðru lagi þá notaði hann aldrei þetta vegbréf. Hann fór úr landi á öðru nafni. Á þeim tímapunkti sem hann fékk vegabréfið þá skilst mér af honum að hann hafi ekki verið að hugsa um að flýja land.“

Aðspurður hvers vegna Sindri þurfti þá vegabréfið segist Þorgils ekki vita það, en bendir á menn þurfi að nota vegabréfið af ýmsum ástæðum. „Þú getur verið að sækja um bankareikninga, til dæmis bankareikninga erlendis, þú getur verið að taka afrit af því til að sækja um kennitölu erlendis, notað það til að kjósa. Þú getur notað vegabréfið til að gera þúsund hluti. Þetta eru þín löggildu skilríki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert