Fá 23 krónur fyrir hverja eydda krónu

Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. Heildarefnahagsáhrif af gestakomunum á Þingvelli í …
Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. Heildarefnahagsáhrif af gestakomunum á Þingvelli í fyrra námu 13,4 milljörðum kr. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bein efnahagsáhrif af heimsóknum ferðamanna til 12 friðlýstra svæða námu 10 milljörðum króna fyrir svæðin sjálf og nærsamfélög þeirra árið 2017. Ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild nam 33,5 milljörðum króna og teljast efnahagsleg áhrif því ótvíræð, samkvæmt nýrri rannsókn sem umhverfis- og auðlindafræðingurinn Jukka Siltanen kynnti á umhverfisþingi í dag. Skilar hver króna sem eytt er svæðunum sér þá 23 sinnum til baka.

Séu hliðaráhrif á aðra geira síðan tekin með í reikninginn má áætla að efnahagsáhrif af heimsóknunum nemi um 12 milljörðum króna fyrir svæðin sjálf og nærsamfélög þeirra og um 41 milljarði króna fyrir þjóðarbúið í heild.

Rannsóknin sem fjallar um efnahagsáhrif friðlýstra svæða var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Svæðin sem hún tekur til eru Snæfellsjökul, Vatnajökul, Þingvellir, Dynjandi, Hraunfossar, Landmannalaugar, Mývatn, Þórsmörk , Ásbyrgi og Laki, Hengifoss og Hvítserkur og er því um að ræða þjóðgarða, friðlýst svæði og svo staði sem ekki njóta neinnar verndar líkt og í tveimur síðastnefndu tilfellunum.

Mikill munur á fjölda gesta sem þarf að sinna

Heimsóknir ferðamannanna á þessi friðlýstu svæði skapa um 1.800 störf á þeim stöðum, sem öll tengjast ferðaþjónustu og um 5.000 störf þegar horft er til landsins alls. Einnig verða 200 störf til á friðlýstu svæðunum sjálfum.

Þau störf dreifast þó ekki jafnt milli svæða og er mikill munur á þeim fjölda gesta sem starfsfólk þjóðgarða með fulla mönnun þarf að sinna og á þeim fjölda sem starfsfólk annarra friðlýstra svæða þarf að sinna. Í fyrrnefnda tilfellinu sinna starfsmenn að meðaltali um 80 gestum hver daglega, en 260 gestum í síðarnefnda tilfellinu.

Staðirnir sem rannsóknin tók til.
Staðirnir sem rannsóknin tók til.

98% eyðslunnar frá erlendum ferðamönnum

Umfang efnahagsáhrifa ræðst að miklu leyti af þeim fjölda gesta sem heimsækir hvern stað, þó að heildareyðsla hvers gests hafi verið sambærileg óháð svæði. Þannig eyddi hver gestur að meðaltali um 21.743 kr. á þeim sólarhring sem hann heimsótti viðkomandi svæði og var 12.682 kr. af þeirri upphæð eytt staðnum sjálfum eða næsta nágrenni hans. Skrifast 98% þeirrar eyðslu á erlenda ferðamenn.

Það þarf því væntanlega engan að undra að efnahagsáhrif af gestakomunum hafi verið mest á Þingvöllum og í Vatnajökulsþjóðgarði, þar sem þau námu annars vegar 13,4 milljörðum kr. og hins vegar 10,8 milljörðum. Eru það umtalsvert hærri fjárhæðir en af þeim stöðum sem eru í þriðja og fjórða sæti listans, Snæfellsjökulsþjóðgarði og Mývatni, en þar námu efnahagsáhrifin 3,6 milljörðum króna á fyrrnefnda svæðinu og 2,6 milljónum á því síðara.

Sundurgreining eyðslu gesta á svæðunum sem rannsóknin tók til.
Sundurgreining eyðslu gesta á svæðunum sem rannsóknin tók til.

Hlutfallið við Hraunfossa 158 á móti einum

Sýnir rannsóknin að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka, en í Finnlandi er þetta hlutfall 10 á móti einum. Hlutfallið hér á landi er þó vissulega ólíkt á milli svæða, allt frá 10:1 við Dynjanda og upp í 158:1 við Hraunfossa. Á Þingvöllum er hlutfallið 25:1, í Vatnajökulsþjóðgarði 15:1 og í Þórsmörk 21:1, svo dæmi séu tekin.

Alls var í rannsókninni rætt við ríflega 3.000 ferðamenn á tímabilinu frá 6. júní til 10. september 2018. Niðurstöðurnar úr viðtölunum við ferðamennina sjálfa voru bornar saman við tölur frá ríkisskattstjóra og kannanir sem gerðar voru meðal atvinnurekenda, en alls var rætt við 415 fyrirtæki sem samtals eru með vel yfir 4.000 starfsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert