Forsetinn á friðarráðstefnu í Frakklandi

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heldur til Frakklands á morgun til að taka þátt í alþjóðlegri friðarráðstefnu, „Paris Peace Forum“, í boði Emmanuels Macrons Frakklandsforseta. Frá þessu er greint í tilkynningu frá skrifstofu forseta.

Forseti Frakklands býður til þessarar ráðstefnu í tilefni af því að eitt hundrað ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar sem þá var mannskæðasta styrjöld sem háð hafði verið í Evrópu. Styrjöldin var einnig tilefni stofnunar alþjóðlegra samtaka sem koma áttu í veg fyrir slíkar hörmungar í framtíðinni.

Guðni mun ásamt öðrum þjóðarleiðtogum sitja hátíðarkvöldverð í boði forseta Frakklands annað kvöld. Ráðstefnan hefst síðan formlega með minningarathöfn við Sigurbogann í París að morgni sunnudagsins en svo býður forseti Frakklands til hádegisverðar.

Við opnun ráðstefnunnar flytja m.a. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ávörp en síðar um daginn flytur forseti Íslands ávarp fyrir hönd Íslendinga og færir Friðarbókasafninu bók að gjöf.

Síðdegis á morgun heimsækir forseti Erró í vinnustofu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert