Leiði Jóns Magnússonar fyrrverandi forsætisráðherra lagfært

Leiði Jóns Magnússonar fyrrverandi forsætisráðherra.
Leiði Jóns Magnússonar fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin og skrifstofa Alþingis hafa ákveðið að leggja fé af mörkum til að heiðra minningu Jóns Magnússonar sem var forsætisráðherra þegar Ísland öðlaðist fullveldi 1. desember 1918.

Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að legsteinninn væri stór­lega laskaður eft­ir að marm­araplat­an fram­an á hon­um brotnaði fyr­ir nokkr­um árum. Fram kom að platan væri nú í geymslu og gröf­in því í reynd ómerkt.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu, að Minjastofnun Íslands hafi verið falið að lagfæra leiði og legstein Jóns í Hólavallagarði í samstarfi við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Marmaraplatan er nú í geymslu og gröf­in því í reynd …
Marmaraplatan er nú í geymslu og gröf­in því í reynd ómerkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er ásigkomulag legsteinsins og leiðisins ekki gott. Áletruð plata á legsteininum var fjarlægð fyrir nokkru vegna þess að hún var farin að brotna og legsteinninn sjálfur er laskaður. 

Legsteinn Jóns stendur við hlið legsteins Péturs biskups Péturssonar og eru þeir um flest nákvæmlega eins. Saman fara þar einhverjir íburðarmestu minnisvarðar í Hólavallagarði.

Þess má geta að í gær kom út bókin Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing. Þar kemur Jón Magnússon mjög við sögu. Bókin er gefin út af Sögufélaginu í samstarfi við afmælisnefnd fullveldisins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert