Vel hægt að afnema skerðinguna strax

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Hari

Afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar er ein af þeim úrbótum sem hægt er að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða ljúka heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum. Þetta kemur fram á vefsíðu Öryrkjabandalagsins.

Þar segir að „krónu á móti krónu“ skerðing komi verst við fólk sem hafi lægstu framfærsluna í íslensku samfélaginu. Ef stjórnvöld vilji vinna gegn fátækt ætti afnám þeirrar skerðingar að vera eitt af fyrstu verkunum.

Til ÖBÍ leitar fólk daglega, sem er í mjög alvarlegri stöðu vegna þessara 100% skerðinga og má því með sanni segja að hér sé um kerfisbundið ofbeldi að ræða,“ kemur fram á vefsíðu ÖBÍ.

Ef skynsemi, réttlæti og vilji til að breyta til batnaðar ráða gjörðum stjórnvalda, hlýtur „krónu á móti krónu“ skerðingin að verða afnumin strax, þannig staðfestu stjórnvöld vilja til að tryggja samfélag fyrir alla í verki. Vilji er allt sem þarf,“ kemur enn fremur fram.

ÖBÍ styður og leggur ríka áherslu á að frumvarp um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga verði að lögum. Með því verði fátækragildra tekin út, kerfið einfaldað og breytingin mun hvetja örorkulífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert