Ý uppáhaldsstafurinn í skrafli

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir er formaður Skraflfélags Íslands. Íslandsmeistaramótið í skrafli …
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir er formaður Skraflfélags Íslands. Íslandsmeistaramótið í skrafli fer fram um helgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslandsmótið í skrafli fer fram í sjötta sinn um helgina. Skraflfélag Íslands stendur fyrir mótinu, sem hefur fest sig verulega í sessi. „Áhuginn hefur verið nokkuð stöðugur, um 17 til 20 manns hafa tekið þátt hverju sinni,“ segir Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, formaður Skraflfélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Þátttaka á mótinu er öllum opin og nítján eru nú þegar skráðir til leiks. Spilaðar eru tíu umferðir með klukku, fimm á laugardag og fimm á sunnudag. Sá keppandi sem flesta vinninga hefur að þeim loknum sigrar og verður nýr Íslandsmeistari í skrafli. Að sjálfsögðu eru veglegir vinningar í boði fyrir þau sigursælustu.

Skrafl hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og nú skrafla þúsundir Íslendinga reglulega, á netinu eða með hefðbundnu skraflborði og stafatöflum. Hildur segir Skraflfélag Íslands taka sig hæfilega alvarlega, en félagið hafi engu að síður stjórn þar sem hún gegnir formennsku.

En hvað er það við skraflið sem heillar?

„Þetta er mér bara í blóð borið. Það kom skrafl inn á heimilið þegar það kom út á íslensku í fyrsta skipti, ætli ég hafi ekki verið 10 eða 11 ára, þetta var svo brjálæðislega skemmtilegt og ég hef ekki hætt að spila síðan,“ segir Hildur.

Yfir 16.000 manns hafa stofnað aðgang á Netskrafli þar sem …
Yfir 16.000 manns hafa stofnað aðgang á Netskrafli þar sem hægt er að skrafla við notendur og vélmenni. Skjáskot/netskrafl.is

„Pervertísk tetris-gleði“

Með tilkomu netskraflsins, þar sem yfir 16.000 manns hafa stofnað aðgang, myndaðist ákveðinn félagsskapur sem fór að hittast reglulega og spila saman skrafl. Hildur segir að leikurinn að tungumálinu sé það sem gerir skraflið svo áhugavert og skemmtilegt. „Að geta teygt það og togað, og dundað sér við að vinna með orðum og mynda ný orð. Svo er þetta smá pervertísk tetris-gleði þegar allt smellur, sem ég fæ mjög mikið út úr,“ segir hún og hlær. 

Íslenska skraflið inniheldur að sjálfsögðu íslenska bókstafi og gefa þeir mismörg stig. Íslensku stafirnir eru í uppáhaldi hjá Hildi og er Ý í sérstöku uppáhaldi. „Ég er mjög hrifin af Ý, mér finnst það mjög góður stafur, en Þ er líka skemmtilegur.“

Hildur verður meðal þátttakenda á mótinu og stefnir hún ótrauð á að fella núverandi Íslandsmeistara, Vilhjálm Árnason, sem ætlar að sjálfsögðu að verja titilinn.

Mótið hefst á morgun klukkan 10 og verður leikið til klukkan 17. Fyrirkomulagið er eins og á sunnudag og verður Íslandsmeistarinn krýndur um klukkan 17 á sunnudag. Keppt verður í Safnahúsinu við Hverfisgötu og eru allir velkomnir. „Við viljum endilega fá gesti til að kíkja við hjá okkur,“ segir Hildur. Opið veður fyrir skráningar til miðnættis í kvöld og hér er hægt að skrá sig til leiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert