Engin skriðuföll orðið fyrir austan

Mikið hefur rignt á Austfjörðum í dag. Mynd úr safni.
Mikið hefur rignt á Austfjörðum í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Það sem af er degi hefur mikil úrkoma á Austfjörðum ekki haft skriðuföll í för með sér eða aðrar stórvægilegar afleiðingar. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Austurlandi er útlit fyrir að upp stytti þegar líður á nóttina. 

Veðurstofan gaf út gula viðvörun fyrir Austfirði sem gildir til klukkan tíu í kvöld og veðurspá benti til talsverðrar eða mikillar rigningar. „Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar. 

Mikið úrhelli á Austurlandi í dag

„Það rigndi eldi og brennisteini alveg frá því seinnipartinn í gær. Ekkert hefur komið upp á enn sem komið er, þannig sem betur fer hefur þetta allt sloppið til,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi við lögreglustöðina á Egilsstöðum.

„Mér sýnist á spánni að það eigi að stytta upp smám saman þegar líður á nóttina. Miðað við það vonumst við til þess að þetta sleppi til, en það er búið að rigna alveg mjög mikið í dag,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert