Gert við skipið eða því fargað

Fjordvik í höfninni í Keflavík í gærkvöldi.
Fjordvik í höfninni í Keflavík í gærkvöldi. Ljósmynd/Víkurfréttir - Páll Ketilsson

Mengun vegna strands flutningskipsins Fjordvik í Helguvík var lítil sem engin að sögn Halldórs Karls Hermannssonar, hafnarstjóra Reykjaneshafnar. Tekist hafi að ná nánast allri olíu úr skipinu og það litla sem farið hafi sjóinn verið hreinsað upp eftir að skipið var dregið til Keflavíkur í gærkvöldi.

„Það skolaðist eitthvað smá úr vélarrúminu en það var ekkert menunaróhapp. Það litla sem þurfti að gera eitthvað í var gert eftir að skipið var farið.“ Flotgirðing var sett í kringum Fjordvik af öryggisástæðum eftir að það hafði verið dregið af tveimur dráttarbátum frá Faxaflóahöfnum til Keflavíkur.

Spurður um skemmdirnar á flutningaskipinu segir Halldór að það sé í rauninni ekki enn vitað nákvæmlega hversu mikið skipið sé skaddað. „Skemmdirnar eru náttúrulega allar undir sjávarmáli. Það er hins vegar sigið að aftan og er ábyggilega verst þar, sá hluti sem lá uppi í grjótgarðinum.“

Vinna við að gera Fjordvik fært um að vera dregið yfir til Hafnarfjarðar í flotkví hefur verið í gangi frá því að skipið kom til Keflavíkur í gærkvöld. Halldór segir að unnið sé á vöktum og að reynt verði að ljúka þessari vinnu eins fljótt og hægt verði. 

Hins vegar verði ekki hægt að fá fulla mynd af skemmdunum fyrr en flutningaskipið komist í flotkvína. Þá verði hægt að taka ákvörðun um framhaldið. 

„Hvort sem gert verður við skipið eða því fargað þá þarf það að fara yfir hafið því það er ekki aðstaða mér vitanlega til þess að gera við það hér á landi, ég held að það sé of stórt, og ekki aðstaða til þess að farga því. Þannig að allar leiðir liggja til útlanda héðan í frá.“

Flutningaskipið geti því ekki farið yfir hafið fyrr en það uppfylli nauðsynlegar reglur í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert