Gjöf Banksy til Jóns sögð skattskyld

Jón Gnarr þáði listaverk að gjöf frá listamanninum Banksy er …
Jón Gnarr þáði listaverk að gjöf frá listamanninum Banksy er hann var borgarstjóri í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Almennt séð er það þannig að venjulegar tækifærisgjafir, t.d. afmælisgjafir og hefðbundnar gjafir, eru skattfrjálsar þ.e.a.s. það þarf ekki að borga skatt af þeim. Allar aðrar gjafir eru skattskyldar,“ segir Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, spurður um skattalega hlið mála á borð við það sem Fréttablaðið greindi frá í morgun í umfjöllun sinni um gjöf sem Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, þáði frá heimsfræga listamanninum Banksy.

Í viðtali við Fréttablaðið kveðst hann í borgarstjóratíð sinni hafa falast eftir verki frá listamanninum og Banksy ákveðið að gefa honum eftirprent af verki sínu með því skilyrði að það yrði hengt upp á borgarstjóraskrifstofunni í ráðhúsinu.

Verk Banksy sem áður var á borgarstjóraskrifstofunni hangir nú heima …
Verk Banksy sem áður var á borgarstjóraskrifstofunni hangir nú heima hjá Jóni, eins og sjá má á þessari mynd sem Jón sjálfur birti á Twitter-síðu sinni.

Í vikunni birtist svo á Twitter mynd af verkinu á vegg á heimili Jóns, en hann kveðst hafa tekið við gjöfinni sem einstaklingur en ekki borgarstjóri. Enginn vafi sé á því að verkið tilheyri honum sem einstaklingi en ekki embættinu.

Hefur aldrei látið meta verðmæti verksins

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að miðað við stærð og sérstöðu verksins megi áætla að það sé hæglega milljóna virði miðað við sölu- og uppboðsverð á eftirprentunum víða á netinu. 

„Það er alveg ljóst að svona gjöf er ekki tækifærisgjöf; hann gefur honum þetta verk og þá er þetta skattskyld gjöf. Í lögunum er líka talað um verðlitlar gjafir og vinninga og þetta fellur ekki þar undir heldur. Það er alveg skýrt í skattalögunum að svona gjafir eru skattskyldar,“ segir Kristján Gunnar. 

Blasir þá við að þessi gjöf sé skattskyld?

„Já,“ segir Kristján Gunnar og nefnir að tekjuskattur gildi auk útsvars. „Þetta er klippt og skorið. Skattalega hliðin á þessu er ekki umdeild og honum ber auðvitað að telja þetta fram,“ segir hann, en tekjuskattur er um 37%. 

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Jón hafi aldrei látið meta verkið og því er óvíst hver ætluð skattfjárhæð er í umræddu máli.

Jón Gnarr var önnum kafinn og sagðist ekki hafa tíma til að svara spurningum blaðamanns um málið í dag, þegar eftir því var leitað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina