Myllarnir sigruðu í Legó-keppninni

Sigurlið Myllanna úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ tekur við verðlaunum í …
Sigurlið Myllanna úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ tekur við verðlaunum í Háskólabíói í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Liðið Myllarnir úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ sigraði í árlegu tækni- og hönnunarkeppninni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói í dag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í norrænni keppni FIRST LEGO League.

Tuttugu lið víða af landinu mættu til leiks í Háskólabíói í morgun og voru þátttakendur hátt í 200 talsins. Liðin höfðu unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mættu þrautþjálfuð til keppninnar, sem skiptist í fjóra meginhluta.

Í fyrsta lagi áttu keppendur að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Legói sem ætlað var að leysa tiltekna þraut sem tengdist þema ársins, sem var himingeimurinn að þessu sinni. Þá áttu keppendur að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni sem einnig tengdist geimnum.

Alls tóku um 200 grunnskólanemendur þátt í keppninni í dag.
Alls tóku um 200 grunnskólanemendur þátt í keppninni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Enn fremur þurftu liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennin sem þau mættu með í keppnina og síðast en ekki síst horfði dómnefnd til liðsheildar. Þátttaka í keppninni reyndi því á margs konar hæfni og þekkingu grunnskólanemanna.

Fengu 350.000 kr. í verðlaunafé

Þegar dómnefnd hafði metið alla þessa þætti hjá liðunum stóð Myllarnir, lið Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, uppi sem sigurvegari en það er skipað níu nemendum úr skólanum. Liðið sigraði einnig í vélmennakapphlaupi keppninnar.

Myllarnir verða fulltrúar Íslands í norrænni keppni FIRST LEGO League sem fyrr segir og til að styðja liðið til þátttöku veittu fyrirtækið Krumma og Háskóli Íslands liðinu samanlagt 350 þúsund krónur í verðlaunafé, en þessir tveir aðilar eru helstu bakhjarlar keppninnar. Sigurliðið og verðlaunahafar í einstökum flokkum hlutu einnig verðlaunabikar úr LEGOi.

Verðlaun fyrir einstaka keppnisþætti skiptust sem hér segir:

  • Sigurvegarar í vélmennakapphlaupi: Myllarnir úr Myllubakkaskóla
  • Besta liðsheildin: Galaxia Paradizo úr Grunnskóla Hornafjarðar
  • Besta rannsóknaverkefnið: Gravity úr Garðaskóla í Garðabæ
  • Besta hönnun og forritun vélmennis: Oxygen úr Grunnskóla Hornafjarðar


Allir þátttakendur í keppninni fengu svo medalíu í viðurkenningarskyni fyrir þátttöku sína.

Margir komu og virtu fyrir sér Legó-smíðina í dag.
Margir komu og virtu fyrir sér Legó-smíðina í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands segir að skólinn hafi staðið fyrir tækni- og hönnunarkeppninni í rúman áratug, en markmið hennar er að efla færni ungs fólks á sviði tækni og vísinda með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun og skapandi hugsun, byggja upp sjálfstraust og efla samskiptahæfni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert