Reyndi að bíta sjúkraflutningamann

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nógu að snúast það …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nógu að snúast það sem af er degi. mbl.is/Eggert

Þó nokkur mál hafa komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, mörg tengd ölvun og fólki í annarlegu ástandi af öðrum ástæðum.

Sjúkraflutningamenn í miðborginni óskuðu meðal annars eftir aðstoð lögreglu, vegna manns sem reyndi að fjarlægja búnað úr sjúkrabifreið og gerði svo tilraun til að bíta sjúkraflutningamann sem stöðvaði för hans.

Sjúkraflutningamaðurinn hélt manninum þar til lögregla kom á vettvang, en maðurinn var í talsvert annarlegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu og vistaður í fangageymslu.

Tveir minni háttar eldar

Tveir eldar voru tilkynntir á fjórða tímanum og lögregla auk slökkviliðs kölluð til. Annars vegar var um að ræða eld í húsnæði í Vogahverfi, en þar hafði kviknað í þakpappa, sem verið var að skipta um. Búið var að slökkva eldinn er viðbragðsaðilar komu á svæðið og því engin hætta á ferðum.

Hins vegar var tilkynnt um eld í ruslafötu inni á salerni á listasafni í miðborginni. Þegar slökkvilið og lögreglan kom á vettvang var búið að slökkva eldinn, en samkvæmt tilkynningu frá lögreglu hafði útigangsfólk verið að athafna sig inni á salerninu og „væntanlega kveikt í“. Fólkið hélt að halda sína leið eftir að hafa rætt við lögreglu.

Fataþjófur á ferð

Maður í annarlegu ástandi reyndi að stela fatnaði úr fataverslun í miðborginni á fjórða tímanum og var stöðvaður á leið sinni út úr versluninni. Lögregla var kölluð til, en maðurinn fékk frjáls að ganga eftir að hafa skilað fatnaðinum, „enda voru ekki frekari kröfur á hendur honum“ samkvæmt lögreglu.

Einnig var tilkynnt um þjófnað í verslun í Árbæ og lögregla mætti á staðinn. Málið var leyst á vettvangi, samkvæmt tilkynningu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert