Bjórböðin þóttu skara fram úr

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, …
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur Bjórbaðanna og Eliza Reid forsetafrú. Ljósmynd/ Ásgeir Ásgeirsson - Pressphotos

Bjórböðin á Árskógssandi hlutu í gærkvöldi nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2018. Eliza Reid, forsetafrú afhenti Bjórböðunum verðlaunin á 20 ára afmæli samtakanna sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica. 

Við verðlaununum tóku Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, sem stofnuðu fyrirtækið Bjórböðin ehf. árið 2015 ásamt syni þeirra og tengdadóttur. 

„Ótrúlega þakklát og stolt“

„Við hjá Bjórböðunum erum ótrúlega þakklát og stolt að hafa verið veitt þessa flotta viðurkenning. Þegar við fórum af stað í þetta verkefni höfðum við mikla trú á því að við gætum skapað nýja og ógleymanlega upplifun í ferðaþjónustu. Viðbrögðin frá gestum hafa verið gríðarlega góð og eru því þessi verðlaun mikil viðurkenning af okkar starfi og þökkum við kærlega fyrir okkur,“ sögðu Agnes og Ólafur, eigendur Bjórbaðanna, eftir verðlaunaafhendingu.

Verðlaunin eru afhent árlega fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið með þeim að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar og vöruþróunar, segir í tilkynningu frá SAF.
33 tilnefningar til verðlaunanna bárust samtökunum í ár en verðlaunin voru þau fimmtándu sem veitt hafa verið.

Í dómnefnd sátu Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, Andri Kristinsson, forstjóri og stofnandi Travelade og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert