Björt tekur Sigmund Davíð og Brynjar tali

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og Páll Magnússon, þingmaður og fyrrverandi …
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og Páll Magnússon, þingmaður og fyrrverandi útvarpsstjóri, stýra þættinum Þingvellir á K100.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, verða gestir Bjartar Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í dag, en þátturinn hefst kl. 10.

Fyrst ræðir Björt við Sigmund Davíð á nokkuð persónulegum nótum um það sem á daga hans hefur drifið í pólitíkinni frá því að hann sagði skilið við félaga sína í Framsóknarflokki og kom fram á sjónarsviðið með Miðflokkinn í fyrra.

Upp á síðkastið hafa farið nokkuð hörð skot á milli Sigmundar Davíðs og framsóknarfólks, eftir að formaðurinn fyrrverandi gagnrýndi flokkinn og ríkisstjórnina á miðstjórnarfundi Miðflokksins. Það mun eflaust bera á góma í spjalli þeirra Sigmundar og Bjartar.

Í síðari helmingi þáttarins bætist Brynjar Níelsson svo í hópinn. Þau Björt, Sigmundur Davíð og Brynjar munu ræða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur.

Hér má hlusta á K100 í beinni útsendingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert