Dagur einhleypra upphaf jólaverslunar

Dagur einhleypra á rætur sínar að rekja til Kína, nánar …
Dagur einhleypra á rætur sínar að rekja til Kína, nánar tiltekið til verslunarrisans Alibaba. AFP

„Um hádegisbil vorum við búin að selja meira heldur en allan „Singles day“ í fyrra. Sem samt var þá fjórum sinnum stærri en árið áður,“ segir Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri netverslunarinnar Heimkaupa en Heimkaup taka þátt í hinum sístækkandi alþjóðlega söludegi netvarslana, degi einhleypra, eða „Singles day“. 

Dagurinn á uppruna sinn að rekja til kínverska verslunarrisans Alibaba, sem varð fljótt svar Kína við öðrum alþjóðlegum netverslanadögum á borð við Black friday sem verslanir um allan heim hafa síðan tekið upp. 

Hefja jólagjafainnkaup á Netinu

Margar íslenskar netverslanir taka þátt í deginum og bjóða upp á afslætti í dag á vöruúrvali sínu. Guðmundur segist lesa út úr þróuninni að fólk vilji vera fyrr á ferðinni við jólagjafainnkaup og njóti þess að geta litið yfir vöruúrvalið heima í stofu. 

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að það séu margir Íslendingar að kaupa jólagjafir í dag, miðað við magnið,“ segir Guðmundur en pantanirnar hafa numið þúsundum það sem af er degi. 

Hann segir þó ekkert skilyrði að fólk sé einhleypt til þess að njóta vara á góðum kjörum „Núna kaupa bæði einhleypir og vel giftir, það er alveg ljóst,“ segir Guðmundur og hlær.

Nær hámarki í kvöld

Dagur einhleypra hefur á síðustu árum tekið fram úr tveimur stórum alþjóðlegum afsláttadögum netverslana, Svörtum föstudegi (e. Black Friday) og Netmánudeginum (e. Cyber Monday), hvað varðar sölu og virðast Íslendingar ætla að halda þeirri þróun til streitu. 

Þó svo að sala hafi gengið framar vonum það sem af er degi segir Guðmundur að enn sé búist við því að salan muni aukast. „Þetta nær hámarki á milli kl. 22 og 23 í kvöld. Eftir kvöldmat, þegar krakkarnir eru komnir upp í rúm,“ segir Guðmundur að lokum. 

mbl.is