Getspakur Haukamaður vann 18,5 milljónir

Hugsanlega er tipparinn getspaki hér á meðal stuðningsmanna Hauka á …
Hugsanlega er tipparinn getspaki hér á meðal stuðningsmanna Hauka á Ásvöllum. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Einn íslenskur tippari var með alla þrettán leikina rétta á Enska getraunaseðlinum í gær og fær fyrir það um 18,5 milljónir króna með aukavinningum, samkvæmt fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá.

Þessi heppni tippari er stuðningsmaður Hauka í Hafnarfirði og tippar á þeirra getraunanúmeri. Íslensk getspá segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem tipparinn fær þrettán leiki rétta, því það gerði hann einnig fyrir tveimur vikum síðan, en þá var vinningsupphæðin lægri.

Ljóst var fyrir leik Tottenham gegn Crystal Palace að hann var með 12 rétta, en mikil spenna var á lokamínútum þess leiks og engu munaði að Crystal Palace næði að jafna í uppbótartíma, en sem betur fer fyrir þennan getspaka Haukamann endaði leikurinn með naumum sigri Tottenham og hann því 18,5 milljónum ríkari.

mbl.is