Ökumaðurinn alvarlega slasaður

Ökumaðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi, alvarlega slasaður eftir ...
Ökumaðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi, alvarlega slasaður eftir bílveltuna. mbl.is/Árni Sæberg

Alvarlegt umferðarslys varð á Borgarfjarðarbraut, rétt norðan við Flókadalsá á sjöunda tímanum í kvöld, þegar bifreið valt nokkrar veltur. Ökumaðurinn var fluttur alvarlega slasaður með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi segir að slökkvilið Borgarbyggðar hafi verið kallað til, en beita þurfti klippum til að ná ökumanninum úr bílnum. 

Unnið er að rannsókn á tildrögum slyssins og eru rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi, rannsóknarnefnd umferðarslysa og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á slysstað.

Eftir því sem best er vitað er Borgarfjarðarbraut enn lokuð vegna slyssins og rannsóknarinnar. Vegagerðin hefur bent á hjáleið um Flókadalsveg, veg 515.mbl.is