Röskva sniðgengur Hverfisbarinn

Stjórn Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands
Stjórn Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands Ljósmynd/Aðsend

Stúdentahreyfingin Röskva hefur hætt við að halda Ragnarök, árlegan viðburð sinn, á Hverfisbarnum eins og til stóð, en í dag komu fram ásakanir á hendur skemmtistaðnum um að trans manneskju hafi verið vísað út af staðnum fyrir það eitt að vera trans.

„Nú höfum við áreiðanlegar heimildir fyrir því að trans fólk og annað hinsegin fólk sé ekki velkomið á Hverfisbarinn,“ segir í tilkynningu Röskvu.

„Röskva stendur fyrir jafnrétti og vill að öllum líði vel á viðburðum á vegum fylkingarinnar og höfum við ákveðið að færa viðskipti okkar annað,“ segir ennfremur.

Fram kemur að hreyfingin sé nú í leit að stað sem sé vinveittur hinsegin fólki, hafi gott aðgengi og sé ekki vís um að brjóta gegn 180. gr. almennra hegningarlaga þar sem bann er lagt við því að aðilar í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neiti mönnum um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðerni þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

„Röskva stendur með hinsegin systkinum sínum og fordæmir ítrekaða mismunun Hverfisbarsins í garð trans kvenna og annars hinsegin fólks,“ segir að lokum í yfirlýsingu Röskvu.

Yfirlýsing Röskvu í heild sinni:

Til stóð að halda stærsta viðburð Röskvu, Ragnarök, á Hverfisbarnum líkt og í fyrra. Nú höfum við áreiðanlegar heimildir fyrir því að trans fólk og annað hinsegin fólk sé ekki velkomið á Hverfisbarinn.

Röskva stendur fyrir jafnrétti og vill að öllum líði vel á viðburðum á vegum fylkingarinnar og höfum við ákveðið að færa viðskipti okkar annað.

Við erum því í leit að nýjum stað fyrir Ragnarök og biðjum um ábendingar um stað sem tikkar í eftirfarandi box.

- LGBTQIA+ friendly

- Gott aðgengi

- Er ekki vís um að brjóta gegn 180 gr. hegningarlaga

180. gr. Hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, [trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar] 1) skal sæta sektum … 2) eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.

Röskva stendur með hinsegin systkinum sínum og fordæmir ítrekaða mismunun Hverfisbarsins í garð trans kvenna og annars hinsegin fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert