Þorsteinn og Kristinn fundnir eftir 30 ár

Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson voru í hópi reyndustu fjallamanna …
Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson voru í hópi reyndustu fjallamanna landsins á þessum tíma, þrátt fyrir ungan aldur. Lík þeirra hafa nú loks fundist. Forsíða Morgunblaðsins 26. október 1988

Lík tveggja íslenskra fjallgöngugarpa, Kristins Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar, fundust nýverið í Nepal, 30 árum eftir að þeir fórust á niðurleið af fjallinu Pumori í október árið 1988, 27 ára að aldri.

Bandarískur fjallgöngumaður rakst á lík þeirra, leitaði að skilríkjum og komst að því að þeir væru íslenskir og tilkynnti fundinn, segir Anna Lára Friðriksdóttir, vinkona þeirra Kristins og Þorsteins, í samtali við mbl.is.

Ekki kemur til greina að um aðra sé að ræða en þá Þorstein og Kristin, en bandaríski maðurinn er enn á fjallinu og mun væntanlega veita nánari upplýsingar síðar.

Hún segir að tveir dagar séu síðan fyrstu fréttir af fundi þeirra Þorsteins og Kristins bárust hingað til lands og að fregnum af fundi þeirra hafi verið komið út til aðstandenda þeirra.

„Þetta eru góðar og erfiðar fréttir,“ segir Anna Lára. „Það er alltaf gott að geta sett punktinn yfir I-ið. Það hefði verið gott fyrir foreldrana að fá að jarða börnin sín,“ bætir hún við, en minningarathöfn um þá Kristin og Þorstein fór fram 26. nóvember 1988. 

„Þetta er svona eins og þegar menn missa einhvern í sjó, það var bara minningarathöfn þá. Þannig er það og þá er hægt að ljúka þeim þætti núna og það er mjög gott fyrir aðstandendur. Þessu er ekki lokið fyrr en þessu er lokið.“

Pu Mori er 7.161 metra hár tindur í Nepal.
Pu Mori er 7.161 metra hár tindur í Nepal. Wikipedia/Philip Ling

Héldu tveir á toppinn

Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson voru í hópi reyndustu fjallamanna landsins á þessum tíma, þrátt fyrir ungan aldur. Þeir fóru frá London 17. september 1988 með flugi til Katmandú í Nepal. Með í för var Jón Geirsson, sem búsettur var í París á þessum tíma og Stephen Aistrope, frá Inverness í Skotlandi. 24. september héldu fjórmenningarnir frá Katmandú áleiðis til fjallsins Pumori, sem er nálægt landamærum Nepal og Kína.

Kristinn Rúnarsson.
Kristinn Rúnarsson.

2.-3. október settu þeir upp aðalbúðir í u.þ.b. 5.000 m. hæð. 5. október höfðu þeir farið upp í fjallið og sett upp búðir 1, í um 5700 m. hæð. Þaðan sneru þeir aftur til aðalbúðanna til þess að venjast loftleysinu áður en haldið yrði á fjallið. 15. október var Jón Geirsson kominn með ígerð í lungun og ákvað að halda til byggða og fór þaðan til Parísar.

17. október ákváðu þeir Þorsteinn og Kristinn að halda á fjallið, en Steve var með iðraflensu og varð eftir í aðalbúðunum. Þennan dag var hvasst en bjart og kalt veður. Þeir komu til búða 1 sama dag.

Þorsteinn Guðjónsson.
Þorsteinn Guðjónsson.

Árla næsta morgun, 18. október, lögðu þeir af stað upp fjallið. Klukkan tvö eftir hádegi sá Steve til þeirra í gegnum sterka aðdráttarlinsu. Þeir voru þá í 6.600-6.700 metra hæð og komnir yfir verstu erfiðleikana við klifið. Þeir voru staddir í bröttum ísbrekkum og í línu. Þeim sóttist ferðin vel. Síðan hurfu þeir úr sjónlínu frá aðalbúðunum og eftir það hefur ekki sést til þeirra fyrr en lík þeirra fundust núna, 30 árum og þremur vikum síðar.

Daginn eftir fór Steve að gruna að ekki væri allt með felldu og sendi hlaupara til byggða til þess að biðja um þyrluaðstoð, en með fjallamönnunum voru innlendir leiðsögumenn. Það tók fjóra daga að útvega þyrluaðstoðina en á meðan leitaði Steve við búðir 1 og gekk auk þess umhverfis fjallið.

22. október kom þyrlan og var leitað úr lofti þann dag, án árangurs. Hvorki sást til þeirra Þorsteins og Kristins né til farangurs þeirra. Nokkru síðar voru þeir taldir af og leit hætt.

Einn Íslendingur enn ófundinn á Pumori

Þriðji Íslendingurinn, Ari Gunnarsson, fórst árið 1991 á sömu slóðum og er hann eini Íslendingurinn sem hefur náð toppi Pumori, svo vitað sé með vissu. Í fyrri útgáfu þessarar fréttar sagði að enginn Íslendingur hefði náð toppi fjallsins svo vitað væri, en ábending barst um að það væri rangt.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um andlát Ara var rætt við Elizabeth Duff, einn af ferðafélögum hans. 

„Hann var í góðu skapi, mjög jákvæður og hlakkaði til að fara. Hann fékk gott veður, miklu betra en við fengum. Hann komst á tindinn á fallegum, heiðskírum degi í glampandi sólskini. Hann klifraði á mjög góðum tíma, miklu hraðar en ég gerði. Hann var greinilega í mjög góðu formi og klifraði hratt,“ sagði Duff í samtali við Morgunblaðið, 19. október 1991, en Ari hrapaði og lést, er hann var á leið niður fjallið.

Anna Svavars­dótt­ir gerði tilraun til að klífa hátindinn árið 2001 en varð frá að hverfa í 6.500 metra hæð og Ívar F. Finnbogason reyndi sömuleiðis að komast á tind Pumori í byrjun nóvember 2005 en hann varð að snúa við í 6.100 metra hæð.

Góðir strákar og frábærir félagar

Jón Geirsson, sem þurfti frá að hverfa vegna veikinda í þessum örlagaríka leiðangri, var í ítarlegu og fróðlegu viðtali við DV í apríl á þessu ári, þar sem hann minntist þeirra Kristins og Þorsteins með miklum hlýhug og rifjaði upp ferðina árið 1988.

„Þetta voru góðir strákar og frábærir félagar,“ sagði Jón um þá félaga, sem höfðu gengið saman í Laugarnesskóla í Reykjavík og byrjað að ganga á fjöll á unglingsárunum.

„Þeir voru „original“ og vildu frekar klæðast í lopapeysum en þeim nútímaklæðnaði sem flestir aðrir klifu í,“ sagði Jón, um þá Kristin og Þorstein.

Í fréttaflutningi af hvarfi þeirra árið 1988 virðist hafa verið gert ráð fyrir því að þeir hefðu lent í slysi á leiðinni upp, fremur en á leið niður. Jón sagði við DV að ekki væri öruggt hvort svo væri, því mánuði eftir leiðangurinn hefði hann fengið þær upplýsingar að maður úr áströlskum leiðangri hefði fylgst með Kristni og Þorsteini „og séð þá alveg við toppinn“.

„Þannig að þeir hafa komist fyrstir á toppinn?“ spurði blaðamaður DV.

Það lítur út fyrir það miðað við þessa frásögn og slysið hafi því gerst á niðurleiðinni. Það eru mestar líkur á því að þeir hafi ætlað að fara sömu leið niður en það er ekkert öruggt í þeim efnum,“ svaraði Jón.

mbl.is
Loka