Vilja ekki innleiða orkupakkann

Sigmundur og Brynjar í viðtali í morgun.
Sigmundur og Brynjar í viðtali í morgun. Skjáskot/K100

„Ég vil reyna að komast hjá því í lengstu lög, ef það er hægt, að innleiða þennan orkupakka,“ sagði Brynjar Níelsson í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun og var svarað af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins: „Við skulum berjast með ykkur í því.“
Þar voru þeir mættir til þess að ræða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, en til stendur að leggja fyrir Alþingi lagafrumvörp vegna málsins í febrúar.

Merkja mátti nokkra samstöðu með viðmælendunum tveimur varðandi áhrif EES-samningsins á Ísland og sagði Brynjar m.a.: „Þetta er vandinn við þennan samning. Það sem gerist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á valdinu verður alltaf meira og meira. Þá er spurningin: Eigum við alltaf að teygja okkur lengra í þessa átt eða eigum við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitthvað of mikið“?“

Sigmundur og Brynjar sammála

Þá minntist Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og stjórnandi þáttarins, á gagnrýni Sigmundar Davíðs á málið, sem fram kom í grein hans í Morgunblaðinu nýverið, og sagði viðmælendurna tvo, Sigmund og Brynjar, vera sammála að miklu leyti hvað málið varðaði. Þá ítrekaði hún að erfitt hefði verið að fá viðmælendur frá Sjálfstæðisflokki í þáttinn, þrátt fyrir að ráðherrar úr röðum flokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, færu fyrir málinu.

Brynjar benti á að hann teldi EES-samninginn hafa verið mjög verðmætan Íslendingum og að hann vildi ekki segja Íslands frá honum en lagði áherslu á að það þyrfti að liggja skýrt fyrir hvað áhrif það hefði ef Alþingi myndi hafna því að innleiða þriðja orkupakkann. Sagðist hann vilja forðast það að innleiða orkupakkann, sem fyrr segir, en sagðist hins vegar ekki ætla að greiða atkvæði gegn honum á grundvelli tilfinninga heldur hagsmunamats.

Óánægjan teygir sig víða

Þá vísaði Björt til könnunar sem framkvæmd var í vor og sýndi fram á að 91,6% Sjálfstæðisfólks væri andvígt því að frekara vald yfir orkumálum á Íslandi yrði fært til evrópskra stofnana. Í kjölfarið benti Brynjar á að í málinu væri hefðbundnum ferlum fylgt, þ.e. að ráðherrar sem málið vörðuðu legðu frumvarpið fram og sagði: 

„Við stöndum bara frammi fyrir því að hér eru menn bara mjög ósáttir við það að við föllum undir þennan evrópska orkumarkað og að það sé einhver stofnun þar sem hefur svona mikið vald.“ Þá sagði hann óánægju með orkupakkann ekki einskorðast við Sjálfstæðisflokkinn heldur teygði hún sig yfir alla ríkisstjórnarflokkana.

Viðtalið í heild má sjá og heyra á k100.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert