Fjölmörg innbrot á borð lögreglu

mbl.is

Lögreglan handtók mann í annarlegu ástandi við veitingahús í hverfi 105 seint í gærkvöldi en hann er grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og fleiri brot. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Í nótt var svo ölvaður maður handtekinn í hverfi 109  þar sem hann olli íbúum ónæði og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær var tilkynnt til lögreglu um innbrot/þjófnað í  hverfi 110.  Farið inn um glugga og loftpressu stolið.

Brotist var inn í bílskúr í hverfi 108 síðdegis í gær en ekki liggur fyrir að sögn lögreglu hverju var stolið. Bifreið sem var í skúrnum var skemmd af innbrotsþjófnum. Jafnframt var tilkynnt til lögreglu um innbrot í bifreið í hverfi 105. Þar var fatnaði og einhverju fleiru stolið.

Seint í gærkvöldi var síðan tilkynnt um innbrot í hús í hverfi 108 en ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar hverju var stolið. Málið er í rannsókn lögreglu.

Um kvöldmatarleytið í gær var tilkynnt til lögreglu um þjófnað á persónulegum munum starfsmanns úr aðstöðu starfsmanna í verslun í Kópavogi og er þjófnaðurinn í rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í nótt var að lokum tilkynnt um innbrot í leikskóla í hverfi 111. Ekki er vitað hverju var stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert